Vanhugsað og dauðhreinsað

Rock of Ages ** (2 stjörnur)
Leikstjórn: Adam Shankman
Leikarar: Diego Boneta, Julianne Hough, Russell Brand, Paul Giamatti, Catherine Zeta-Jones, Mary J. Blige, Malin Åkerman, Alec Baldwin, Tom Cruise

Kvikmyndin Rock of Ages er byggð á samnefndum Broadway-söngleik og segir frá lífi nokkurra starfsmanna „Bourbon Room“-næturklúbbsins í Hollywood árið 1987. Í stað frumsaminna laga styðst verkið við klassíska hármetalslagara frá hljómsveitum á borð við Whitesnake, Twisted Sister og Extreme. Hugmyndin er ekki svo galin enda tónlist og tíðarandi þessa tímabils bæði kraftmikil og litrík, en framkvæmdina hefði mátt hugsa betur.

Þar sem sagan er í besta falli ófrumleg skiptir það afskaplega miklu máli að söngatriðin séu vel úr garði gerð. Það er jú það sem myndin snýst að mestu leyti um, grípandi rokkmúsík sem eldri kynslóðin þekkir vel og þeir yngri gætu auðveldlega hrifist af. En því miður er frumkraftur rokksins hlunnfarinn algjörlega og í staðinn fáum við dauðhreinsað popp hjúpað þykku lagi af auto-tune. Illa farið með annars þrælgóð lög.

Af þessum sökum er erfiðara að líta fram hjá öllu hinu sem er misheppnað við Rock of Ages. Eins og klaufalegu dramatíkina við Hollywood-skiltið, pínlega kynlífsatriðið á billjardborðinu, þá staðreynd að aðalsöngkonan kann bara að syngja R&B, og að enginn syngi í hljóðnema þó hann sé staðsettur beint fyrir framan hann. Og af hverju er það fyndið að tvær karlpersónur ákveði að játa hvor öðrum ást sína? Er það vegna þess að þær syngja hallærislegt lag í kjölfarið eða vegna þess að fólki finnst tilhugsunin um tvo karlmenn að knúsast ennþá jafn hlægileg og fyrir 50 árum?

Mig langar samt að hrósa leikmyndadeildinni fyrir sitt framlag því útlit myndarinnar er upp á tíu. Einnig eru þeir Tom Cruise og Paul Giamatti nokkuð skemmtilegir í sínum hlutverkum, en þá er það því miður upptalið sem Rock of Ages hefur fram að færa. Ef þið komist yfir upprunalegar útgáfur allra laganna úr myndinni getið þið samt búið til heljarinnar blandspólu fyrir bílinn.

Niðurstaða:I Love Rock ‘n’ Roll“ syngja þau um leið og þau svívirða rokkið. Synd og skömm.

Birt í Fréttablaðinu 26.6.2012

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: