Ný og glæsileg hlið á Jack Black

Bernie **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Richard Linklater
Leikarar: Jack Black, Shirley MacLaine, Matthew McConaughey

Aðstoðarútfararstjórinn Bernie Tiede vingast við geðstirðu ekkjuna Marjorie Nugent eftir útför eiginmanns hennar. Bernie er vinsæll í heimabænum en hin forríka og aldraða ekkja er fyrirlitin af flestum, enda fræg fyrir kaldlyndi og skepnuskap. Áður en langt um líður er Bernie orðinn eins konar þræll hjá gömlu konunni og vanlíðanin eykst í sífellu þar til dag einn hann bugast og blýfyllir hana með beltisdýrabyssu. Kvikmyndin er byggð á sönnum atburðum sem áttu sér stað í austurhluta Texas-fylkis árið 1996.

Richard Linklater er heimspekilegur og leitandi leikstjóri, og sumar mynda hans höfða alls ekki til allra. Bernie er listræn og hægfara, en um leið bæði aðgengileg og þrælskemmtileg. Linklater nær því besta úr leikurunum og þá sérstaklega Jack Black, heimsþekkta spéfuglinum og sprelligosanum sem sýnir hér glænýja og glæsilega hlið sem dramatískur leikari. Oft er þó létt yfir honum enda persónan bæði litrík og óvenjuleg. Sagan er svo krydduð með grátbroslegum viðtölum við raunverulega íbúa smábæjarins sem þekktu þau Bernie og Marjorie, en engan hafði nokkru sinni grunað hvað síðar myndi gerast.

Og það er afneitunin sem gerir þessa sorglegu sögu svo merkilega, en meirihluti bæjarbúa krafðist þess að saksóknari sleppti Bernie við ákæru. Rökin voru þau að hann væri svo yndislegur maður og gæti þess vegna ekki hafa framið þennan hryllilega verknað. Í hljóði flissaði ég yfir barnalegum og sveitó Ameríkananum en mundi fljótlega eftir ítrekuðum dæmum um umræðu á svipuðu plani hér heima og var skyndilega ekki lengur hlátur í hug. Sveitó barnaskapur virðir líklega engin landamæri.

Niðurstaða: Bernie er afbragð og Jack Black hefur aldrei verið betri.

Birt í Fréttablaðinu 30.6.2012

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: