Sarpur fyrir júlí, 2012

Heiðarleg tilraun

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 26.7.2012 by snobbhaensn

Red Lights *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Rodrigo Cortés
Leikarar: Cillian Murphy, Sigourney Weaver, Robert De Niro, Elizabeth Olsen, Toby Jones, Joely Richardson

Þessi hrollvekjandi spennutryllir segir frá Dr. Margaret Matheson og aðstoðarmanni hennar, Tom Buckley, en saman fletta þau ofan af miðlum og spámönnum sem féfletta auðtrúa almenning. Einn þeirra hefur þó reynst doktornum erfiður og er það hinn heimsfrægi Simon Silver, sem um þessar mundir snýr aftur úr sjálfskipaðri útlegð sinni frá sviðsljósinu.

Red Lights er kjánaleg á köflum en verður ekki meint af. Andi yfirnáttúrukvikmynda 8. áratugarins svífur yfir vötnum og þá aðallega þeirra sem fallnar eru í gleymsku. Sumar þeirra voru meingallaðar en tókst engu að síður að skapa magnað andrúmsloft. Mig langar að nefna myndir á borð við Audrey Rose og The Sentinel. Red Lights fellur í sama flokk og mögulega ómeðvitað. Hún rembist í það minnsta aldrei við að vera „retró“.

Cillian Murphy er klaufaleg týpa af náttúrunnar hendi og hentar það ágætlega hér. De Niro er í hlutlausum að vanda, en Sigourney Weaver tekst að gera heilmikið úr litlu. Hún er frábær leikkona og það er frábært að aðstandendur myndarinnar hafi veðjað á hæfileikakonu á sjötugsaldri í hlutverk persónu sem gæti verið á hvaða aldri sem er. Karlarnir hafa komist upp með þetta árum saman og vonandi er hlutverkapólitíkin í Hollywood loksins að breytast.

Myndin nær þó aldrei að verða merkileg, en gerir engu að síður heiðarlega tilraun til að draga hrollvekjuna upp á æðra plan. Of lengi hefur hún spólað í hjólförum póstmódernískra sniðugheita og hrollvekjuhundar eru orðnir óþreyjufullir í bið sinni eftir einhverju betra. Þrátt fyrir gallana eru góðu sprettirnir í Red Lights margir og ég er sannfærður um að Rodrigo Cortés á frábæra mynd uppi í erminni.

Niðurstaða: Þó ýmislegt vanti er stemningin til staðar.

Birt í Fréttablaðinu 26.7.2012

Auglýsingar

Hví svo alvarlegur?

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 25.7.2012 by snobbhaensn

The Dark Knight Rises *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Christopher Nolan
Leikarar: Christian Bale, Anne Hathaway, Tom Hardy, Michael Caine, Gary Oldman, Marion Cotillard, Joseph Gordon-Levitt, Morgan Freeman

Þriðju og síðustu myndar leikstjórans Christopher Nolan um Leður-blökumanninn hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Batman Begins var ágætis upphafspunktur á þríleiknum og framhaldið, The Dark Knight, þótti sérlega vel heppnað og gerði allt bandvitlaust. Í þessum íburðarmikla lokakafla berst Blakan við harðsvíraðan hrotta að nafni Bane sem heldur Gotham-borg í gíslingu með atómbombu, en minnsta óhlýðni borgarbúa er sögð nægja til að hann gangsetji sprengjuna.

Það er einkar vel staðið að sjónrænum þáttum myndarinnar og samspil kvikmyndatöku, leikmyndar og tæknibrellna er óaðfinnanlegt. Þá er leikhópurinn í góðum gír og illmennið Bane er óhuggulegt en um leið aðlaðandi. Christian Bale er frábær sem Bruce Wayne en ég hef alltaf átt erfiðara með að sætta mig við hann í Blökubúningnum. Anne Hathaway reynir ekki einu sinni að feta í fótspor Michelle Pfeiffer og tekur allt annan vinkil á Kattarkonuna en við erum vön, ákvörðun sem var sú besta í stöðunni og hlutverkið fer henni vel.

Nolan hefur hins vegar engan húmor fyrir Leðurblökumanninum sínum og þrúgandi alvarleikinn sem hefur farið stigvaxandi með hverri myndinni nær hápunkti hér. Manni kemur til hugar orð sjálfs Jókersins í seinustu mynd, „Why so serious?“, rétt áður en hann sker í sundur andlitið á einum andstæðinga sinna, en leikstjórinn eyðir hér tæpum þremur klukkutímum í að reyna að sannfæra okkur um að skikkju-klæddur maður með leðurblökueyru sem berst við glæpi sé ekkert til að gantast með.

Vissulega er engin ein rétt leið til gera þessari sígildu teiknimynda-söguhetju skil á hvíta tjaldinu og það er alveg klárt að Christopher Nolan er mikill listamaður. Hann sýndi okkur það líka í The Dark Knight að ofurhetjumyndir fyrir fullorðna er alls ekki svo fráleit hugmynd. En þyngslin og voðalegheitin í The Dark Knight Rises eru svo yfirgengileg frá upphafi til enda að dramatískur slagkraftur atriða sem raunverulegu máli skipta verður minni fyrir vikið.

Mig langar þó að þakka Nolan fyrir metnaðarfulla seríu og þá sérstak-lega fyrir miðjumyndina. Honum hefur svo sannarlega tekist að leiðrétta mistök forvera síns, leikstjórans Joel Schumacher, sem breytti uppáhalds ofurhetjunni minni í súrrealískt BDSM-sirkusatriði og lét sauma á hana leðurgeirvörtur.

Niðurstaða: Helst til þunglamalegur lokakafli en mikil veisla fyrir augað.

Birt í Fréttablaðinu 25.7.2012

Ekki krúttlegir lengur

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 16.7.2012 by snobbhaensn

Ted *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Seth MacFarlane
Leikarar: Mark Wahlberg, Mila Kunis, Seth MacFarlane, Giovanni Ribisi, Joel McHale, Patrick Warburton, Jessica Barth, Matt Walsh, Aedin Mincks

Átta ára að aldri óskaði John Bennett þess að bangsinn hans lifnaði við. Óskin rættist og krúttbangsinn Ted vann hug og hjarta heimsbyggð-arinnar. En síðan eru liðin tæp 30 ár og í dag eru félagarnir lítið sem ekkert krúttlegir. Þeir sitja bólufreðnir öllum stundum fyrir framan sjónvarpið, Ted er orðinn hinn mesti strigakjaftur og kærasta Johns er komin á fremsta hlunn með að henda bangsanum út og kærastanum á eftir.

Fyrst það þurfti á annað borð að gera kvikmynd um talandi dónabangsa er ég feginn að það var Seth MacFarlane sem gerði það. Seth þessi er höfundur hinna umdeildu en oft á tíðum sprenghlægilegu Family Guy-þátta, og þegar kemur að gríni er honum lítið sem ekkert heilagt. Að vísu hefur það heppnast misvel þegar teiknimyndaleikstjórar skipta úr skrípó yfir í alvöru leikara af holdi og blóði en Mike nokkur Judge (Beavis and Butt-head, Office Space) er sönnun þess að þetta er vel hægt.

Mestöllu fjörinu er haldið uppi af bangsanum og það er MacFarlane sjálfur sem talar fyrir hann. Brandararnir eru ríkulega skammtaðir og fæsta þeirra þyrði ég að hafa eftir. Wahlberg er fínn og notast að stórum hluta við aðferð Leslie heitins Nielsen, að vera grafalvarlegur við hlægilegar aðstæður. Það er þó afar lítið fútt í bangsalausu atriðunum en þau eru til allrar hamingju ekki mörg. Vísanir í aðrar kvikmyndir og poppkúltúr almennt eru á hverju strái, margar hverjar þrælfyndnar og eru það sci-fi nördarnir sem fá mest fyrir sinn snúð.

Á köflum reynir Ted þó of mikið. Það sama er stundum uppi á teningnum í Family Guy. MacFarlane er snjall en mig grunar að hann sé umvafinn já-mönnum og öllu sé hleypt í gegn sem honum dettur í hug. Allavega eru hér tíu mínútur af fitu sem hefði orðið myndinni til góðs að missa. Brelludeildin fær hins vegar hæstu einkunn.

Niðurstaða: Sprenghlægilegur bangsi í þokkalegri mynd. En skiljið börnin eftir heima.

Birt í Fréttablaðinu 14.7.2012

Faðir vor

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 7.7.2012 by snobbhaensn

Starbuck **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Ken Scott
Leikarar: Patrick Huard, Julie LeBreton, Antoine Bertrand, Igor Ovadis

David Wozniak er sannkallaður samfélagsdragbítur. Hann stendur sig illa í vinnunni, ólétt kærastan er að gefast upp á honum og hand-rukkarar sitja um hann. Sem ungur maður vandi hann komur sínar í sæðisbanka og nú, um það bil 20 árum síðar, fær hann þær fregnir að hann sé faðir 533 barna. Ástæða þess að honum berast fregnirnar er sú að 142 barnanna hafa stefnt sæðisbankanum og krefjast þess að nafnleynd blóðföðursins verði aflétt.

Sem gamanmynd er Starbuck vel heppnuð og það er sprenghlægilegt að fylgjast með aumingja sæðisgjafanum njósna um uppkomin afkvæmi sín. Myndin gefur sér góðan tíma í að kynna persónur og aðstæður og fléttar söguna af afslappandi öryggi. Það er Patrick Huard sem fer með aðalhlutverkið og gerir það vel, og þó Wosniak sé með allt niðrum sig er hann ávallt með áhorfendur á sínu bandi. Grínið er gott án þess að verða nokkurn tímann yfirgengilegt, og merkilegt nokk þá virkar þessi lygilega saga trúverðug á köflum.

En innan um léttleikann leynist kaldur raunveruleiki og það er í dramatísku senum Starbuck sem flugeldunum er skotið á loft. Verri leikstjóri hefði klúðrað þessum atriðum og gert þau óþolandi en Ken Scott heldur vel á spöðunum og forðast tilgerðarlega tilfinningasemi. Útkoman er því nær skotheld gamanmynd fyrir unga sem aldna. Ég verð þó að gera athugasemd við arfaslakt sýningareintak myndarinnar, en óskýr pixlasúpan gerir það að verkum að sýningargesti á fremri bekkjum fer að gruna að verið sé að streyma myndina af Youtube.

Niðurstaða: Sitjið aftarlega og skemmtið ykkur vel.

Birt í Fréttablaðinu 7.7.2012

Lói fyrir lengra komna

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 6.7.2012 by snobbhaensn

The Amazing Spider-Man *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Marc Webb
Leikarar: Andrew Garfield, Emma Stone, Rhys Ifans, Denis Leary, Campbell Scott, Irrfan Khan, Martin Sheen, Sally Field, Chris Zylka

Það eru ekki nema tíu ár liðin frá frumsýningu fyrstu myndarinnar í þríleik leikstjórans Sam Raimi um Köngulóarmanninn. Sú sería var á köflum ágæt en leið fyrir lélegar tölvubrellur og það að aðalleikarinn hentaði ekki í hlutverkið. Nú er því byrjað upp á nýtt og er það leikstjórinn Marc Webb (ekki grín) sem situr við stjórnvölinn. Aðdáendur þessarar langlífu myndasöguhetju fá að fylgjast með því eina ferðina enn hvernig hann varð eins og hann er, en í þetta sinn eiga þeir von á óvæntum glaðningi.

Sköpunarsaga Lóa er nefnilega þrælvel uppbyggð og Andrew Garfield er fullkominn í hlutverk Peter Parker. Emma Stone er sömuleiðis sannfærandi sem hin 17 ára Gwen Stacy, og í raun er leikaraliðið eins og það leggur sig í fantagóðum gír. Það er ekki fyrr en hasarinn hefst fyrir alvöru sem myndin misstígur sig. Eðlumaðurinn er ferkantað og klunnalegt illmenni og seinni hálfleikur The Amazing Spider-Man er mun meiri skrímslamynd en nokkurn tímann ofurhetjumynd. Þá er frágangi lausra enda einnig ábótavant, þó mig gruni reyndar að einhverjir þeirra verði leystir í framhaldsmyndum.

Það bendir samt ýmislegt til þess að Köngulóarmaðurinn eigi bjarta framtíð fyrir sér á þessum trausta grunni sem hér er byggður. Brellurnar eru fyrsta flokks og brandararnir til staðar. Það sem skiptir þó lykilmáli er að Lói er loksins orðinn bíóhetja sem haldandi er með. Sorrí Tobey Maguire, en nú sést það enn betur hvað þú varst lélegur Spædermann.

Niðurstaða: Skref í rétta átt fyrir Köngulóarmanninn.

Birt í Fréttablaðinu 6.7.2012