Faðir vor

Starbuck **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Ken Scott
Leikarar: Patrick Huard, Julie LeBreton, Antoine Bertrand, Igor Ovadis

David Wozniak er sannkallaður samfélagsdragbítur. Hann stendur sig illa í vinnunni, ólétt kærastan er að gefast upp á honum og hand-rukkarar sitja um hann. Sem ungur maður vandi hann komur sínar í sæðisbanka og nú, um það bil 20 árum síðar, fær hann þær fregnir að hann sé faðir 533 barna. Ástæða þess að honum berast fregnirnar er sú að 142 barnanna hafa stefnt sæðisbankanum og krefjast þess að nafnleynd blóðföðursins verði aflétt.

Sem gamanmynd er Starbuck vel heppnuð og það er sprenghlægilegt að fylgjast með aumingja sæðisgjafanum njósna um uppkomin afkvæmi sín. Myndin gefur sér góðan tíma í að kynna persónur og aðstæður og fléttar söguna af afslappandi öryggi. Það er Patrick Huard sem fer með aðalhlutverkið og gerir það vel, og þó Wosniak sé með allt niðrum sig er hann ávallt með áhorfendur á sínu bandi. Grínið er gott án þess að verða nokkurn tímann yfirgengilegt, og merkilegt nokk þá virkar þessi lygilega saga trúverðug á köflum.

En innan um léttleikann leynist kaldur raunveruleiki og það er í dramatísku senum Starbuck sem flugeldunum er skotið á loft. Verri leikstjóri hefði klúðrað þessum atriðum og gert þau óþolandi en Ken Scott heldur vel á spöðunum og forðast tilgerðarlega tilfinningasemi. Útkoman er því nær skotheld gamanmynd fyrir unga sem aldna. Ég verð þó að gera athugasemd við arfaslakt sýningareintak myndarinnar, en óskýr pixlasúpan gerir það að verkum að sýningargesti á fremri bekkjum fer að gruna að verið sé að streyma myndina af Youtube.

Niðurstaða: Sitjið aftarlega og skemmtið ykkur vel.

Birt í Fréttablaðinu 7.7.2012

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: