Sarpur fyrir ágúst, 2012

Vaggandi og groddaleg

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 31.8.2012 by snobbhaensn

Elles *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Małgorzata Szumowska
Leikarar: Juliette Binoche, Joanna Kulig, Anaïs Demoustier

Juliette Binoche leikur blaðakonu í París sem kemst í kynni við tvær ungar vændiskonur í tengslum við grein sem hún vinnur að fyrir tímaritið Elle. Konurnar segja sögu sína og við fáum að sjá svipmyndir úr lífi þeirra, og þá helst úr vændinu. Á sama tíma er fjölskyldulíf blaðakonunnar undir miklu álagi. Eiginmaðurinn er tilætlunarsamur og tillitslaus, elsti sonurinn fiktar með fíkniefni, og sjálf er konan farin að leita huggunar í flöskunni.

Ákveðin hætta er á að mynd af þessu tagi festist í hjólförum fordæminga og predikana, en Elles lætur allt slíkt eiga sig. Þeir sem eru mótfallnir vændi sjá ömurleikann í kynlífssenunum á meðan aðrir sjá eitthvað allt annað. Annað slagið gerist myndin meira að segja svo djörf að sýna gjaldskylda bólfimina í jákvæðu ljósi. Kannski eru skoðanir mínar eilítið litaðar af andstyggð minni á „greininni“, en þessi atriði eru ekki síður óþægileg en þau subbulegustu.

Og fyrst við erum í kynlífssenunum er rétt að taka það fram að Elles er á köflum óþarflega groddaleg. Það þjónar engum tilgangi að sýna konu í kvikmynd fá hlandbunu upp í munninn á sér. Þá er vaggandi myndatakan þreytandi til lengdar og tökumaðurinn skemmti sér eflaust betur yfir bjöguðu linsunni sinni en áhorfendur munu gera. Í miðjunni eru allir óeðlilega mjóir en breikka svo til hliðanna.

Það er gríðarsterkur leikhópurinn sem heldur myndinni uppi. Binoche hefur fyrir löngu sannað sig sem ein allra besta leikkona heims, og hinar aðalleikkonurnar tvær eru einnig alveg frábærar. Einnig lumar myndin á einstöku atriði sem mun lifa lengur í minningu minni en myndin sjálf. Það á sér stað við borðstofuborð fjölskyldunnar og er þrælmagnað.

Niðurstaða: Tætingsleg mynd á köflum, en frábærir leikarar sigla þessu í höfn.

Birt í Fréttablaðinu 31.8.2012

Auglýsingar

Betri en forverinn

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 25.8.2012 by snobbhaensn

The Expendables 2 *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Simon West
Leikarar: Sylvester Stallone, Jason Statham, Yu Nan, Jean-Claude Van Damme, Dolph Lundgren, Terry Crews, Arnold Schwarzenegger, Bruce Willis

Árið 2010 safnaði hinn hálfsjötugi Sylvester Stallone saman mörgum af þrútnustu sláturkeppum hasarmyndanna og tróð þeim öllum í hina misheppnuðu The Expendables. Þrátt fyrir að innihalda aðeins brotabrot af því fjöri sem hún lofaði sló myndin rækilega í gegn, og nú er að sjálfsögðu komin framhaldsmynd. Að þessu sinni er söguþráðurinn jafnvel þynnri, en líkt og í fyrri myndinni fjallar framhaldið um fullt af brjáluðum gamlingjum að drepa fullt af öðrum brjáluðum gamlingjum.

Munurinn er hins vegar sá að nú er betri leikstjóri við stjórnvölinn og léttleikinn fær að ráða ríkjum. Persónusköpun fyrri myndarinnar var fyrir neðan allar hellur, meira að segja á mælikvarða B-klassa hasarmynda, en æðaberu ofurmennin fá úr meiru að moða í þetta sinn. Líklega hefur það verið meðvituð ákvörðun að hafa söguþráðinn á leikskólastigi til að búa til meira pláss fyrir grín og glens, og til að hver persóna fyrir sig fái að njóta sín betur. Fyrri myndin var nefnilega merkilega húmorslaus og sumir jötnanna urðu hálf ósýnilegir, enda margir að berjast um sviðsljósið.

En þó hér séu ýmis mistök forverans leiðrétt er margt sem betur mætti fara. Myndatakan er afar furðuleg og oft breytist áferðin í miðju atriði. Nærmynd ef til vill pixluð og gróf (og jafnvel úr fókus) en í næsta skoti er allt komið í gljáfægða háskerpu. Tölvugerða blóðið er enn til staðar og ég þverneita að trúa því að einhverjum finnist það flott. Þá verður það svolítið þreytandi til lengdar hvað mikið er gert úr því „hver birtist næst“. Dæmi um þetta er örhlutverk Chuck Norris, en hann gæti eins verið að sýna kjól á tískusýningu. Hann gengur inn, snýr sér, og gengur aftur út.

Í svona mynd skiptir þó mestu máli að hasarinn sé í lagi, og það er hann svo sannarlega hér. Sem fyrr er það Íslandsvinurinn Dolph Lundgren sem stelur senunni, Stallone og Statham smella betur saman en áður, Terry Crews á nokkur góð atriði og Schwarzenegger reytir af sér brandarana. Sumir eru fyndnir, aðrir dansa á línu pínlegheitanna. Þá átta ég mig ekki alveg á því hvert Stallone er að fara með alpahúfuna og yfirskeggið. Verður hann með lírukassa og lítinn apa í mynd númer þrjú?

Niðurstaða: Engin meistarasmíð, en talsvert betri en fyrri myndin.

Birt í Fréttablaðinu 25.8.2012

Niður með puntið!

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 25.8.2012 by snobbhaensn

Brave **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Mark Andrews, Brenda Chapman
Leikarar: Kelly Macdonald, Billy Connolly, Emma Thompson, Robbie Coltrane, Julie Walters, Kevin McKidd, Craig Ferguson

Disney-samsteypan hefur smjaðrað fyrir kóngafólki lengur en elstu menn muna. Óraunhæfar prinsessufantasíur ungra stúlkna eiga nær undantekningarlaust rætur sínar að rekja að einhverju eða öllu leyti til barnaefnis merktu Disney, þó vissulega eigi það oft á tíðum lengri sögu.

Nýjasta afurð fyrirtækisins (og dótturfélagsins Pixar) er hin tölvuteiknaða Brave, og segir hún frá ungri prinsessu í Skotlandi til forna. En hér hefur verið hrist rækilega upp í formúlunni og hin konungborna aðalpersóna er bæði óhefluð og uppreisnargjörn. Hún gefur skít í „dömufræði“ móður sinnar, kærir sig ekki um neinn af vonbiðlum sínum, og eyðir mestöllum tíma sínum í bogfimi og hangs. Hún biður norn um að leggja álög á móður sína, rétt til þess að mýkja hana upp, en ekki vill betur til en svo að þeirri gömlu er breytt í skógarbjörn.

Brave er mikið sjónarspil eins og flest sem frá Pixar kemur, og þó söguþráðurinn virki ófrumlegur við fyrstu sýn er nálgunin augljóslega óhefðbundin séu hin femínísku gleraugu sett upp. Það er nánast eins og Disney-bákninu finnist það skulda heiminum afsökunarbeiðni vegna prinsessusnobbsins í gegnum tíðina, og viti menn, hin rytjulega og ódannaða Merida sem hér er fylgst með er langflottasta kvenpersóna sem sést hefur í teiknimynd lengi.

Húmorinn er ekki langt undan og oftar en ekki er hann á kostnað keltneskra staðalímynda. Hér eru flestir rauðbirknir, uppstökkir og illa tenntir, kumpánlegir en helst til háværir. Sagan um bjarndýrið fær kannski helst til mikið pláss miðað við hversu seint hún fer af stað. Til að byrja með hélt ég að hún yrði nokkurra mínútna útúrdúr frá Meridu og vonbiðlunum, en smám saman tekur hún alfarið yfir. Skemmtilegt fyrir þau yngstu en við stóru börnin viljum frekar meira af berrössuðum Skotum á fylleríi.

Brave er samt glæsileg. Vinsældir bleiku puntprinsessunnar er samfélagsmein sem hefur fylgt okkur allt of lengi. Skemmtilega kaldhæðnislegt væri ef Disney ætti á endanum þátt í að frelsa okkur frá því. Er ég kannski of bjartsýnn?

Niðurstaða: Fyndin, flott og femínísk skemmtun fyrir unga sem aldna.

Birt í Fréttablaðinu 25.8.2012

Áfram Hrafnhildur!

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 20.8.2012 by snobbhaensn

Hrafnhildur *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir

Í þessari áhugaverðu heimildarmynd fáum við að fylgjast með Hrafnhildi, ungri stúlku sem fæddist í líkama drengs, en er nú í miðju kynleiðréttingarferli og hefur undanfarin ár lifað sem kona. Áður hét hún Halldór og gekk í gegnum allar þær andlegu raunir sem maður getur ímyndað sér að fylgi því að búa í röngum líkama.

Hrafnhildur er heillandi karakter, listhneigð og hæfileikarík, og eru atriðin tengd saman með verkum eftir hana sjálfa. Þetta er óþvingað og kemur skemmtilega út. Viðtölin við aðstandendur hennar eru bæði fyndin og falleg, en besta sena myndarinnar er tvímælalaust þegar Hrafnhildur rekst á gamla vinkonu sem hefur ekki hugmynd um þessa líkamlegu breytingu

Það er RÚV-kempan Ragnhildur Steinunn sem leikstýrir og er þetta frumraun hennar fyrir aftan myndavélina. Ekki er hægt að sjá annað en að hún sé jafnvíg báðum megin vélar og nálgast hún viðfangsefnið af bæði virðingu og varkárni. Þó dregur varkárnin á stöku stað úr áhrifamættinum og ekki er staldrað við óþægilega hluti á borð við ónærgætna föðurbræður, þjáninguna sem leiddi til fíkniefnaneyslu og hina lamandi óvissu þegar Hrafnhildi er tjáð að mögulega fái hún ekki að fara í hina langþráðu aðgerð. Í stað þess er klippt yfir í næstu senu eða hoppað mánuði fram í tímann.

Þessi 70 mínútna langa mynd hefði vel þolað að vera ögn lengri, og líklega hagnast eilítið á því líka. Þrátt fyrir það er vel hægt að mæla með Hrafnhildi og ég er handviss um að leikstýran á fullt inni.

Niðurstaða: Falleg frumraun sem allir hafa gott af að sjá.

Birt í Fréttablaðinu 18.8.2012

Betri en flest

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 17.8.2012 by snobbhaensn

To Rome With Love **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Woody Allen
Leikarar: Alec Baldwin, Roberto Benigni, Jesse Eisenberg, Woody Allen, Ellen Page, Alessandra Mastronardi, Penélope Cruz, Judy Davis, Fabio Armiliato, Greta Gerwig, Alison Pill, Flavio Parenti

Kvikmyndir leikstjórans Woody Allen eru orðnar fleiri en 40 talsins og á hverju ári bætir hann að minnsta kosti einni í bunkann. Mynd hans frá því í fyrra, Midnight in Paris, þykir ein hans allra besta í seinni tíð og skilaði hún meiru í kassann en nokkur önnur mynd leikstjórans frá upphafi. Það voru því töluverðar líkur á að sú næsta á eftir myndi ekki standa undir væntingum.

Og nú er hún komin, To Rome With Love, og tvinnar saman fjórum aðskildum sögum sem eiga það eitt sameiginlegt að sögusvið þeirra er Rómarborg. Við fylgjumst með ástarævintýrum og framhjáhöldum, útfararstjórum og portkonum, miðaldra arkitekt sem gerist sérstakur ráðunautur yngri útgáfu af sjálfum sér í kvennamálum og óperusöngvara sem getur ekki sungið utan sturtunnar. Að ógleymdri skrifstofublókinni Leopoldo sem dag einn verður frægur fyrir nákvæmlega ekki neitt.

Það telst vart til tíðinda þegar Woody setur saman öflugan leikhóp. Hér er allt eins og það á að vera og best eru þau Eisenberg, Mastronardi og tenórinn Fabio Armilato. Stíllinn er skemmtilega losaralegur og minnir til skiptis á fyrstu verk leikstjórans og það sem hann hefur aðhafst í ellinni.

Sögurnar eru misgóðar og á stöku stað er brandaralopinn teygður helst til mikið. En miðlungsgóður Allen er þrátt fyrir allt betri en flest það sem ratar í bíóhúsin frá Bandaríkjunum, og sé To Rome With Love borin saman við eitthvað annað en fyrri verk leikstjórans er styrkur hennar augljós.

Niðurstaða: Fágunin og fáránleikinn ganga í eina sæng og úr verður skemmtilegur hræringur sem ætti að höfða til flestra aðdáenda leikstjórans.

Birt í Fréttablaðinu 17.8.2012

Engum til gagns

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 13.8.2012 by snobbhaensn

Total Recall ** (2 stjörnur)
Leikstjórn: Len Wiseman
Leikarar: Colin Farrell, Kate Beckinsale, Jessica Biel, Bryan Cranston, Bokeem Woodbine, John Cho, Bill Nighy

Það er óðs manns æði að reyna að fara í stígvél hollenska brjálæðingsins Paul Verhoeven, en hann leikstýrði vöðvabúntinu Arnold Schwarzenegger í kvikmyndinni Total Recall árið 1990. Leikstjórinn Len Wiseman reynir það engu að síður og kallar það nýja uppfærslu á smásögunni sem gamla myndin er byggð á. Gott og vel, við leyfum honum það.

21. öldin er senn á enda og verkamaðurinn Douglas Quaid (Colin Farrell) ákveður dag einn að leyfa fyrirtækinu Rekall að koma nýjum minningum fyrir í hausnum á sér. Þetta á að hjálpa honum að takast á við lítt merkilegar athafnir hins daglega lífs og láta honum finnast hann hafa gert eitthvað virkilega magnað. Gamanið kárnar þó fljótt og í ljós kemur að Quaid á sér dularfulla fortíð sem hann man ekki einu sinni sjálfur eftir.

Stórbrotin sviðsmyndin er af Blade Runner-skólanum og tæknibrellurnar svíkja engan. Fyrsta klukkutímann stefnir myndin í rétta átt og þrátt fyrir stöðugan (og mögulega ósanngjarnan) samanburð við eldri myndina tekst leikstjóranum að halda athygli manns ágætlega. Um miðbik er hins vegar eins og hann setji á sjálfstýringu og úr verður óspennandi hasargrautur sem er freistandi að dotta yfir. Brellumontið missir að endingu sjarmann, illmennið er leiðinlega ofleikið og sögulokin fyrirsjáanleg.

Maður spyr sig reglulega hvers vegna bandarískir framleiðendur kjósa frekar að grafa hugmyndir upp úr gömlum sarpi og kvikmynda þær upp á nýtt í stað þess að reyna við eitthvað frumsamið og ferskt. Total Recall er þrælskemmtileg kvikmynd og hefur verið það síðustu 22 árin, en þessar endurbætur eru engum til gagns.

Niðurstaða: Hér er lítið meira í boði en sviðsmyndin og brellurnar.

Birt í Fréttablaðinu 11.8.2012

Subbuleg skemmtun

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 3.8.2012 by snobbhaensn

Killer Joe *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: William Friedkin
Leikarar: Matthew McConaughey, Emile Hirsch, Juno Temple, Gina Gershon, Thomas Haden Church

Exorcist-kempan William Friedkin nálgast nú áttrætt en heldur sig við efnið og sendir nú frá sér hina subbulegu Killer Joe. Myndin hlaut hinn óvinsæla NC-17 stimpil frá kvikmyndaeftirlitinu vestanhafs, en það þýðir að engum undir 17 ára aldri er hleypt inn á myndina. Aldurstakmarkið getur haft í för með sér umtalsvert tekjutap fyrir framleiðendur en engu að síður var Killer Joe látin flakka óstytt í bíó.

Myndin, sem byggð er á samnefndu leikriti Tracy Letts, segir frá durtslegri fjölskyldu í Texas sem leggur á ráðin um að drepa fyrrverandi eiginkonu og barnsmóður fjölskylduföðurins. Til verksins ráða þau Manndráps-Jóa, rannsóknarlögreglumann sem drýgir tekjurnar með leigumorðum, en fljótlega kemur í ljós að Jói er jafnvel brenglaðri en í upphafi var talið.

Andstyggilegt titilhlutverkið verður enn áhugaverðara í höndum sjarmatrölls á borð við McConaughey, en hann fer hér algjörlega á kostum sem hinn kynferðislega brenglaði en fjallmyndarlegi morðhundur. Gershon, Church og Hirsch ofleika öll temmilega en það venst fljótt og virðist vera hluti af sýningunni. Það er þó Juno Temple sem stelur senunni í hlutverki unglingsstúlkunnar á heimilinu. Frábær leikkona sem ég hlakka til að sjá meira af.

Með hæfileika sína í farteskinu og traustan leikhóp til umráða má segja að Friedkin hafi hér flest verkfærin til þess að búa til frábæra kvikmynd, en honum tekst það því miður ekki alveg. Losaralegur endaspretturinn dragur úr áhrifamættinum og hin viljandi óljósu sögulok skapa hvorki skemmtilega óvissu né umræður, heldur pirring og svekkelsi. Þetta er synd þar sem leikstjórinn á mörg frábær, listræn augnablik í fyrri hlutanum. Að lokum mætti einhver benda honum á að ráða til sín betri klippara.

Niðurstaða: Skemmtileg en nokkuð subbuleg.

Birt í Fréttablaðinu 3.8.2012