Vaggandi og groddaleg

Elles *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Małgorzata Szumowska
Leikarar: Juliette Binoche, Joanna Kulig, Anaïs Demoustier

Juliette Binoche leikur blaðakonu í París sem kemst í kynni við tvær ungar vændiskonur í tengslum við grein sem hún vinnur að fyrir tímaritið Elle. Konurnar segja sögu sína og við fáum að sjá svipmyndir úr lífi þeirra, og þá helst úr vændinu. Á sama tíma er fjölskyldulíf blaðakonunnar undir miklu álagi. Eiginmaðurinn er tilætlunarsamur og tillitslaus, elsti sonurinn fiktar með fíkniefni, og sjálf er konan farin að leita huggunar í flöskunni.

Ákveðin hætta er á að mynd af þessu tagi festist í hjólförum fordæminga og predikana, en Elles lætur allt slíkt eiga sig. Þeir sem eru mótfallnir vændi sjá ömurleikann í kynlífssenunum á meðan aðrir sjá eitthvað allt annað. Annað slagið gerist myndin meira að segja svo djörf að sýna gjaldskylda bólfimina í jákvæðu ljósi. Kannski eru skoðanir mínar eilítið litaðar af andstyggð minni á „greininni“, en þessi atriði eru ekki síður óþægileg en þau subbulegustu.

Og fyrst við erum í kynlífssenunum er rétt að taka það fram að Elles er á köflum óþarflega groddaleg. Það þjónar engum tilgangi að sýna konu í kvikmynd fá hlandbunu upp í munninn á sér. Þá er vaggandi myndatakan þreytandi til lengdar og tökumaðurinn skemmti sér eflaust betur yfir bjöguðu linsunni sinni en áhorfendur munu gera. Í miðjunni eru allir óeðlilega mjóir en breikka svo til hliðanna.

Það er gríðarsterkur leikhópurinn sem heldur myndinni uppi. Binoche hefur fyrir löngu sannað sig sem ein allra besta leikkona heims, og hinar aðalleikkonurnar tvær eru einnig alveg frábærar. Einnig lumar myndin á einstöku atriði sem mun lifa lengur í minningu minni en myndin sjálf. Það á sér stað við borðstofuborð fjölskyldunnar og er þrælmagnað.

Niðurstaða: Tætingsleg mynd á köflum, en frábærir leikarar sigla þessu í höfn.

Birt í Fréttablaðinu 31.8.2012

Auglýsingar

Eitt svar to “Vaggandi og groddaleg”

  1. Ég sé reyndar eftir að hafa hleypt setningunni „Það þjónar engum tilgangi að sýna konu í kvikmynd fá hlandbunu upp í munninn á sér“ í gegn. Það getur vel þjónað tilgangi í kvikmynd, þó það geri það ekki í þessari.

    En ég birti þetta engu að síður orðrétt eins og það var í blaðinu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: