Sarpur fyrir september, 2012

Vandaður virðingarvottur

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 21.9.2012 by snobbhaensn

Djúpið **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Baltasar Kormákur
Leikarar: Ólafur Darri Ólafsson, Björn Thors, Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir, Jóhann G. Jóhannsson, Stefán Hallur Stefánsson, Theodór Júlíusson, Þröstur Leó Gunnarsson

Flestir Íslendingar þekkja söguna af Helliseyjarslysinu, þar sem hinn rúmlega tvítugi Guðlaugur Friðþórsson synti sex kílómetra leið í nístíngskulda frá sökkvandi skipi alla leið til Heimaeyjar. Hellisey VE 503 hvarf í hafið að kvöldi 11. mars 1984 og tók fjóra unga menn með sér. Nú hefur leikstjórinn Baltasar Kormákur kvikmyndað þessa stórbrotnu sögu, og byggir hana á samnefndu leikriti Jóns Atla Jónassonar.

Það er Ólafur Darri Ólafsson sem leikur Guðlaug og betri mann er vart hægt að hugsa sér í hlutverkinu. Þó það sé í sjálfu sér lítill svipur með honum og fyrirmyndinni þá eru þeir svipaðir í laginu og það bil sem eftir verður brúar Ólafur með óaðfinnanlegum leik. Þetta er sérstaklega gaman að sjá í ljósi þess hve sjaldan maður sér hann leika aðalhlutverk. Hann má endilega gera meira af því.

Það er helst að manni finnist vanta upp á persónusköpun landkrabbanna, en nær helmingur myndarinnar gerist á þurru landi. Þetta er ekki algilt, en það er óneitanlega furðulegt að sjá Þorstein Bachmann, frábæran leikara með mikla nærveru, notaðan sem hálfgerðan statista.

Tæknilegu atriðin eru til fyrirmyndar og samspil kuldalegrar myndatökunnar og ískrandi tónlistar Ben Frost og Daníels Bjarnasonar skapar nöturlegt andrúmsloftið sem til þarf. Fortíðarmyndefnið á 8mm filmunum er bæði alvöru og plat, kemur nokkuð vel út, en hefði þó verið áhrifaríkara í minna magni.

Leikstjórn Baltasars er lágstemmd og laus við tilgerð. Hann nálgast viðfangsefnið af mikilli virðingu en dettur ekki í hug að ota vasaklútnum að áhorfendum sínum. Hann nær að kynna áhöfn skipsins ótrúlega vel á þeim stutta tíma sem hann hefur, en skipið sekkur undir lok fyrri hluta myndarinnar. Að því loknu heldur Ólafur einn á spöðunum og þá þarf leikstjórinn að standa sig, sem hann gerir með miklum sóma. Minning skipverjanna á Hellisey lifir og Djúpið er vel heppnaður virðingarvottur við þá.

Niðurstaða: Ekki fullkomin, en skipar sér þó sess undir eins sem ein af bestu myndum Baltasars.

Birt í Fréttablaðinu 21.9.2012

Auglýsingar

Drama í úrvalsflokki

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 15.9.2012 by snobbhaensn

A Seperation ***** (5 stjörnur)
Leikstjórn: Asghar Farhadi
Leikarar: Leila Hatami, Peyman Moaadi, Shahab Hosseini, Sareh Bayat, Sarina Farhadi

Þessi frábæra íranska kvikmynd frá því í fyrra hefur farið sigurför um heiminn, unnið til fjölda verðlauna og nemur nú loks land í íslenskum kvikmyndahúsum. Segir hún frá ungum hjónum í Tehran sem skilja að borði og sæng. Konan flytur burt, en eiginmaðurinn verður eftir í íbúð hjónanna ásamt unglingsdóttur þeirra og öldruðum föður sínum sem þjáist af Alzheimer. Dag einn ræður hann fátæka og heittrúaða konu til þess að annast gamla manninn, en hún veldur starfinu illa og allt fer á endanum í háaloft.

Myndin eyðir mörgum ranghugmyndum fáfróða vesturlandabúans um Íran. Tehran virðist nokkuð nútímaleg borg og frjálslyndi millistéttarinnar er meira en annarra. Þó þetta sé ekki aðalatriði myndarinnar liggur dramatíkin samt að stórum hluta í þessum mismunandi viðhorfum persónanna til trúarinnar og lífsins.

Leikararnir eru algjörlega frábærir og þau Leila Hatami og Peyman Moaadi eru þar fremst meðal jafningja. Áhorfandinn trúir því að þau séu raunverulega hjón sem hafi eitt sinn verið ástfangin og hamingjusöm, en nú sé neistinn horfinn og þau eigi sér bjartari framtíð hvort í sínu lagi. Heimilishjálpin og vafasamur eiginmaður hennar vekja samúð og fyrirlitningu til skiptis og þessi „hversdagslegu“ vandamál sem persónurnar glíma við kalla fram meiri spennu en flestar hasarmyndir sem ég hef séð nýverið.

Leikstjórinn, sem einnig er handritshöfundur og framleiðandi myndarinnar, á mikið hrós skilið fyrir vönduð vinnubrögð og góða listræna dómgreind. Tökumaðurinn er með vélina í lófanum mest allan tímann og gerir það smekklega og þægilega. Þá er kvikmyndin án tónlistar alveg þar til stafir rúlla í blálokin. Sú ákvörðun var hárrétt, enda hefði músík sennilega þvælst fyrir og dregið úr áhrifamættinum. Skothelt handritið, góð leikstjórn og leikur í úrvalsflokki sjá um þetta hjálparlaust.

Niðurstaða: Ein besta mynd síðasta árs.

Karpað í körfunni

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 6.9.2012 by snobbhaensn

Ávaxtakarfan *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Sævar Guðmundsson
Leikarar: Ólöf Jara Skagfjörð, Matthías Matthíasson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Helga Braga Jónsdóttir, Magnús Jónsson, Atli Óskar Fjalarsson, Bára Lind Þórarinsdóttir, Fannar Guðni Guðmundsson, Birgitta Haukdal

Ávaxtakarfan, hið vinsæla barnaleikrit eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur, er komið í bíó og fáum við að fylgjast með ævintýrum Mæju jarðarbers, Evu appelsínu og allra hinna ávaxtanna á hvíta tjaldinu, en stemningin í körfunni er súr, einelti er liðið og frekjan í ananasnum er óþolandi. Já, rasistinn og sadistinn Immi ananas heldur ávaxtakörfunni í gíslingu, og spilar með veikleika hinna til að fá sínu framgengt. En eins og svo oft þar sem valdagræðgi og illska ræður ríkjum er uppreisn á næsta leiti.

Sviðsmyndin er íburðarmikil og töff í hráleika sínum. Hins vegar er hún hvorki nægilega stór né fjölbreytileg til þess að virka sem sögusvið heillar kvikmyndar. Í leikhúsinu höfum við nándina við leikarana og sjálft verkið til að bæta upp fyrir þær ýmsu takmarkanir sem leikhúsinu fylgja. Þegar vel tekst til verða þessar takmarkanir jafnvel að styrkleika. En hér fer bæði börnum og fullorðnum að leiðast sjónrænt tilbreytingar-leysið þegar síga fer á seinni hlutann. Kvikmyndatakan er engu að síður glæsileg, og hér svífur myndavélin mjúklega um hvern krók og kima. Þá eru litríkir búningarnir vel úr garði gerðir og þola vel nærmyndirnar jafnt sem víðu skotin.

Leikararnir eru í góðu stuði og skemmtilegastar eru þær Ólöf Jara og Ágústa Eva. Af öllum leikurunum var Ágústa sú eina sem ég gat virkilega ímyndað mér að kæmist upp með að klæðast ávaxtabúningnum sínum á almannafæri. Mér fannst hún satt að segja svolítið smart sem appelsína. Músíkin spilar auðvitað stórt hlutverk og allir leikararnir eru liðtækir söngvarar. Lögin eru eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson og í þeim má finna margar grípandi melódíur til að skaka hausnum við. Og þau bestu eru bara skrambi góð.

Það er þó afar erfitt að skella stjörnum á svona verk. Söguþráðurinn samanstendur af mörgum misstórum vandamálum sem persónurnar þurfa að leysa. Ef einhvern rauðan þráð er að finna er það eflaust sá heilnæmi boðskapur að allir séu jafnir og sátt og samlyndi sé betra en sundrung og stælar. Fyrir eldri börnin (svo ég tali nú ekki um okkur fullorðna fólkið) er þetta ef til vill brytjað niður í óþarflega smáa bita. En sem barnaefni fyrir þau yngstu er Ávaxtakarfan nokkuð vel heppnuð.

Niðurstaða: Heilnæmt fjör fyrir þau yngstu. Aðrir ættu að hrökkva í gang í tónlistaratriðunum.

Birt í Fréttablaðinu 6.9.2012