Lífið eftir Argento

Nú stendur RIFF-hátíðin sem hæst og heiðursgestur hátíðarinnar, ítalski leikstjórinn Dario Argento, hefur fengið mikla og verðskuldaða athygli. Þegar ég frétti af þessari fyrirhuguðu heimsókn hoppaði ég nær hæð mína úr kæti, enda mikill aðdáandi til margra ára.

Fyrst heyrði ég nafn leikstjórans í útvarpsþætti Páls Óskars Hjálmtýssonar, Sætt og sóðalegt, á Aðalstöðinni snemma á 10. áratug síðustu aldar. Palli talaði um einhverja ægilegustu hryllingsmynd sem sögur færu af, Suspiria, og ég (óafvitandi) lagði nafnið á minnið.

Ég var reyndar örugglega orðinn meira en tvítugur þegar ég svo loksins sá Suspiria. Það þykir mér frábær mynd og síðan þá hef ég séð öll helstu verk leikstjórans, og sum oftar en einu sinni. Ég er meira að segja svo mikill fanboy að fyrir ofan rúmið mitt hangir forláta Suspiria-veggspjald, og ég verð að viðurkenna að tilhugsunin um að fá meistarann til að árita myndina kitlaði mig töluvert.

Ég suðaði í mínum mönnum á Fréttablaðinu um að fá að taka viðtal við Argento í tilefni Íslandsheimsóknarinnar og sú beiðni mín var samþykkt. Svo loksins á mánudagsmorgninum fyrir tæpum tveimur vikum hringdi ég til Rómaborgar í minn mann og spjallaði um heima og geima, allt í gegnum túlk að sjálfsögðu, en Dario gamli er ekkert sérlega sleipur í enskunni.

Þegar ég sat svo í Bíó Paradís í gær, eftir sýningu á Suspiria (sem ég sofnaði reyndar á), fyrir framan manninn og hlustaði á hann tala fattaði ég hvað svona fanboy-ismi getur verið kjánalegur. Ég tók ekkert með mér til að láta hann árita, ég spurði einskis í Q&A-inu og þó hann hafi labbað framhjá mér hægum skrefum, og ekki einu sinni upptekinn, þá eiginlega meikaði ég ekki að taka í höndina á honum.

Hvað var ég svo sem að fara að segja? „Helló, æ em Haukur, jú nó, ðe djörnalist hú intervjúd jú ðí öðer dei“? Eða segja honum hvað mér fyndist hann frábær? Hvaða gagn hefur hann eða ég að því? Þetta er 72 ára gamall ítalskur maður sem kann varla ensku, veit að öllum þarna inni finnst hann frábær, nennir hann í alvörunni eitthvað hlusta á mig röfla og krota síðan á Phenomena-DVDinn minn?

Nei andskotinn hafi það, ég lét hann í friði. Nikkaði bara kurteisislega til hans og hann nikkaði til baka. Eða kannski var hann bara að nikka einhverjum fyrir aftan mig. Eða kannski er hann með tourette.

Auðvitað sé ég eftir þessu í dag. Hvað var ég eiginlega að spá? Dario fokkings Argento var þarna fyrir framan mig og ég gerði ekki neitt. Fór bara heim að skrabbla á Facebook eins og eitthvað helvítis fífl.

Auglýsingar

Eitt svar to “Lífið eftir Argento”

  1. Þórunn Says:

    Það er ekkert fíflalegt við það að skrabbla á facebook 😦

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: