Stjarnfræðilegt stuð

Ljósmynd: Vilhelm

Star Wars ***** (5 stjörnur)
Tónleikar í Eldborgarsal Hörpu. Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Hljómsveitarstjóri: Lucas Richman

Á árunum 1977 til 1983 komu út þrjár kvikmyndir sem skildu eftir sig dýpri spor í kvikmyndasögunni en nokkurn óraði fyrir. Saman mynda þær Stjörnustríðsþríleikinn, myndaflokk sem þykir með því merkilegra sem sést hefur í bandarísku afþreyingarbíói frá upphafi. Í kringum aldamótin bætti hugmyndasmiðurinn George Lucas svo þremur myndum við seríuna. Viðbæturnar eru töluvert síðri að gæðum en gamli þríleikurinn, en eitt þykir þó vel heppnað í öllum myndunum sex og það er undursamleg kvikmyndatónlist John Williams.

Það ríkti mikil eftirvænting í Eldborginni þegar hljómsveitarstjóri kvöldsins (og sögumaður), Lucas Richman, gekk inn á sviðið. Hann kynnti tónleikana, en á efnisskránni voru vel valin stef úr þessum sígilda myndaflokki. Hljómsveitin hoppaði yfir kynningarlag Twentieth Century Fox og byrjaði beint á stefinu sem allir þekkja, sjálfu aðalstefinu. Það var öllum ljóst frá fyrstu nótu að Sinfóníuhljómsveit Íslands myndi fara vel með þessa frábæru tónlist. Flutningurinn var upp á tíu og hljómurinn góður.

Fyrir hlé var mestmegnis leikin tónlist úr seinni þríleiknum (sem er í raun fyrri hluti sögunnar) og í upphafi setti ég spurningamerki við þá ákvörðun. Nýrri stefin eru ekki jafn grípandi og þau gömlu, en þegar þau eru leikin í tónleikasal fjarri Jar Jar Binks og Svarthöfðabarninu heyrir áhorfandinn glögglega að tónskáldið Williams sofnaði aldrei á verðinum þó George Lucas hafi gert það. Eftir vel heppnaða upphitun var stef Svarthöfða leikið, og í miðjum klíðum birtist hann sjálfur á sviðinu ásamt tveimur aðstoðarmönnum og fjarlægði hljómsveitar-stjórann.

Eftir stutt hlé (þar sem ég heyrði meðal annars tvo fullorðna menn óskapast yfir því að Greedo hafi skotið fyrst í endurútgáfu A New Hope) var komið að alvörunni. Þarna fengu gestir allt það sem þeir vildu. Ljúfsár einkennislög vitringsins Yoda og Lilju prinsessu, kómíkina í eyðimerkurævintýrum vélmennanna R2D2 og C-3PO, æsilegan lokabardagann á plánetunni Endor, og meira að segja furðudjass pöbbabandsins í Mos Eisley. Allt það sem eyrun girntust og rúmlega það.

Hljómsveitin lék í tæpar tvær klukkustundir, að frádregnu hléi, og hvergi var feilnóta slegin. Tímaröðin virkaði vel og hljómsveitarstjórinn er ágætis sögumaður. Stjarnfræðilegar væntingar aðdáenda kvikmyndanna voru uppfylltar, og hinum hefur varla leiðst heldur. Til þess er tónlistin hreinlega of góð.

Niðurstaða: Stórskemmtileg kvöldstund og Sinfó í banastuði. John Williams væri stoltur.

Birt í Fréttablaðinu 30.11.2012

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: