Orkumikil og öðruvísi

Silver Linings Playbook

Silver Linings Playbook **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: David O. Russell
Leikarar: Bradley Cooper, Jennifer Lawrence, Robert De Niro, Jacki Weaver, Chris Tucker, Anupam Kher, Julia Stiles

Pat Solitano (Bradley Cooper) þjáist af geðhvarfasýki og er vistaður á stofnun eftir að hafa verið dæmdur fyrir fólskulega líkamsárás. Að afplánun lokinni fær hann að vera í umsjá foreldra sinna, að því gefnu að hann virði nálgunarbann sem á hann var sett. Hann á erfitt með að aðlagast samfélaginu, þverneitar að taka lyfin sín og því er heimilisfriðurinn meira og minna úti. Þegar hann kynnist Tiffany, ungri ekkju sem deilir reynslu hans af geðrænum kvillum, tekur líf hans óvænta stefnu.

Handrit myndarinnar er byggt á samnefndri skáldsögu Matthew Quick frá árinu 2008, og er skrifað af leikstjóranum sjálfum, David O. Russell, en hann er alræmdur fyrir frekju, yfirgang og bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi í garð leikara sem vinna með honum. Engu að síður þykir það eftirsóknarvert að leika í myndunum hans, enda er leikstjórnarstíll hans spennandi og öðruvísi. Höfundareinkenni hans er þessi sérstaka orka, sem sést hvergi annars staðar en í myndunum hans. Það er erfitt að lýsa henni nákvæmlega en persónur í David O. Russell-myndum hegða sér ekki eins og neinar aðrar persónur.

Líkt og í fyrri myndum leikstjórans þá er ferskleikinn á kostnað trúverðugleikans á stöku stað. Þetta eru í sjálfu sér smáatriði, og sumum kann að þykja þau sjarmerandi, en ég tel þó að myndin væri betri án þeirra. Þá er ég að tala um tilgangslausar senur á borð við eltingarleik við hrekkjóttan nágranna og þegar lögregluþjónn á vakt reynir að fiska stefnumót við Tiffany.

Russell nær samt því allra besta úr leikhópnum og alveg óvænt sannar Bradley Cooper sig sem fantagóður dramatískur leikari. Jennifer Lawrence er frábær að vanda, þrútinn Chris Tucker lætur sjá sig í litlu hlutverki og er stórskemmtilegur, og með sinni bestu frammistöðu í langan tíma gefur gamla brýnið Robert De Niro þeim langt nef sem töldu hann útbrunninn.

Silver Linings Playbook er hvatvís, ófyrirsjáanleg og öðruvísi, svolítið eins og aðalpersónan og jafnvel leikstjórinn sjálfur, sem ég tel hafa gert sína bestu mynd til þessa.

Niðurstaða: Gríðarsterk mynd með mikinn karakter.

Birt í Fréttablaðinu 5.12.2012

Silver Linings Playbook

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: