Archive for the Blogg Category

RIFF – Takk fyrir mig

Posted in Blogg, Gagnrýni, RIFF on 8.10.2012 by snobbhaensn

Þá er RIFF 2012 lokið og allt í allt sá ég 13 myndir. Það er sæmilegt í ljósi þess að ég neyddist til að vera hálf-vanvirkur fyrri hluta hátíðar. Síðustu tvær myndirnar sá ég í gærkvöldi og báðar voru þær skandinavískar. Hin sannsögulega Kon-Tiki er norsk og segir frá fífldjarfri flekasiglingu landkönnuðarins Thors Heyerdal frá Perú til Pólýnesíu árið 1947. Þetta er gríðarlega íburðarmikil próduksjón og sú allra dýrasta sem ráðist hefur verið í á Norðurlöndunum. Myndin er hrikalega flott, þrælskemmtileg og bráðfyndin, en það er grunnt á dramanu. Það er líka alveg í lagi stundum.

 

Seinni myndin var sjálf lokamynd RIFF, The Hunt eftir Thomas Vinterberg, en í henni er leikskólastarfsmaður í litlum bæ í Danmörku sakaður um að misnota barn kynferðislega. Samfélagið fer á annan endann og andrúmsloft myndarinnar er þrúgandi og óþægilegt. Myndin er frábær og Mads Mikkelsen sýnir stórleik í aðalhlutverkinu. Þá fannst mér bláendirinn sérstaklega sterkur en samferðamaður minn var mér ósammála.

Hvað um það, 13 myndir í heildina og aðeins ein þeirra fannst mér slök (Og We Are Legion var meh). Það er frábært hlutfall sem ég veit ekki hvort skrifast á gæðastjórnun RIFF eða það að ég hafi hreinlega grísað á allar réttu myndirnar. Skipuleggjendur mega þó vera stoltir af vinnu sinni og það er mín tilfinning að hátíðin í ár hafi markað kaflaskil í sögu RIFF. Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í því annað en huglægt stemningarmat mitt, en mér er farið að sýnast andrúmsloftið og spenningurinn líkjast Airwaves meir og meir.

Ég vona samt að á næsta ári verði hádegissýningum bætt við. 14:00-sýningarnar sem ég fór á voru vel sóttar og ég er handviss um að 12:00-sýningar væru það líka. Þá gæti maður séð enn fleiri myndir. Lúxusvandamál? Þaðheldégnú!

Takk fyrir mig RIFF!

Auglýsingar

Næstsíðasti í RIFF

Posted in Blogg, Gagnrýni, RIFF on 7.10.2012 by snobbhaensn

Gærkvöldið á RIFF var ögn meira upplífgandi en föstudagskvöldið og lagði ég leið mína í Háskólabíó til að sjá tvær myndir. Searching For Sugar Man er sú mynd á hátíðinni sem ég hef heyrt flesta mæla með. Segir hún frá dularfullri leit að lítið þekktum tónlistarmanni sem enginn veit hvort er lífs eða liðinn. Sögur herma að hann hafi skotið sig í hausinn á tónleikum. Aðrir vilja meina að hann hafi kveikt í sér. Þessi magnaða mynd stóð undir væntingum, er gríðarlega vel gerð og sagan sjálf er lyginni líkust. Ég mæli ekki bara með myndinni, heldur skipa ég þér að sjá hana eins og skot. Hún er æði.

Seinni mynd kvöldsins var Woody Allen: A Documentary, nokkuð vönduð en þó ekki hnökralaus heimildarmynd um þennan magnaða leikstjóra og grínista. Þetta er voða beisik. Viðtöl við Woody og samstarfsfólk, klippur úr myndunum hans, svipmyndir úr daglegu lífi hans o.s.frv. Þrælskemmtilegt fyrir aðdáendur og eflaust ágætt fyrir hina, en ferill Woody hefur verið bæði langur og dramatískur. Miðað við allt sem á hefur dunið er þetta kannski helst til mikið drottningarviðtal. En hvað um það, fínasta mynd og inniheldur margar af mínum uppáhalds Woody-senum. Saknaði þó mannsins sem fór úr fókus.

Í kvöld lýkur RIFF. Ég ætla að sjá tvær myndir. En fyrst ætla ég aðeins að liggja.

RIFF-dugnaður

Posted in Blogg, Gagnrýni, RIFF on 6.10.2012 by snobbhaensn

Ég hélt mig við Paradísina í gær og sá þar heilar þrjár myndir á RIFF.

Indie Game: The Movie segir frá bandarískum tölvuleikjahönnuðum í óháða geiranum og hvernig þeir leggja geðheilsuna að veði við listsköpun sína. Flestir eru þeir félagslega á skjön við normið en ástríðan drífur þá áfram og maður á erfitt með að halda ekki með þeim (fyrir utan einn þeirra, sem maður á stundum erfitt með að halda með). Myndin er skemmtileg og nokkuð vel gerð, og vekur upp ýmsar spurningar varðandi tölvuleiki yfir höfuð og listrænt gildi þeirra.

Að tölvuleikjunum loknum var röðin komin að kynferðislega brenglaða austurríska tvíeyki kvöldsins. Í kvikmyndinni Still Life kemst ungur maður að hræðilegu leyndarmáli föður síns og fjölskyldulífið fer á annan endann í kjölfarið. Takturinn er gríðarlega hægur og þessi tæplega 80 mínútna mynd er lengi að líða. Þó fer því fjarri að áhorfandanum leiðist, en það er vissulega lítið stuð í Still Life. Ég var eiginlega bara þrælsáttur við hana og fannst hún gera umfjöllunarefninu góð skil, án þess að missa sig í einhverjum sleazy-heitum, að einu atriði undanskyldu (er að hugsa um að skrifa um það spes pistil við tækifæri).

Leikstjóri Still Life (Sebastian nokkur Meise) átti annan fulltrúa í Paradísinni í gær, en það var heimildarmyndin Outing. Í henni fylgjumst við með þýskum fornleifafræðinema sem er haldinn barnagirnd. Hann segist aldrei hafa látið undan hvötum sínum og talar opinskátt um þær. Í byrjun dáist maður af hugrekki hans en fljótlega sér maður hvernig hann gengur sífellt lengra, bæði í orðum og gjörðum, og maður spyr eiginlega ekki að leikslokum. Áhugavert efni og erfið mynd, en fjandi fróðleg, það verður að segjast.

Ég gæti skrifað meira um allar þessar myndir, og hver veit nema ég geri það, en fyrst er það meira bíó.

Lífið eftir Argento

Posted in Blogg, RIFF on 5.10.2012 by snobbhaensn

Nú stendur RIFF-hátíðin sem hæst og heiðursgestur hátíðarinnar, ítalski leikstjórinn Dario Argento, hefur fengið mikla og verðskuldaða athygli. Þegar ég frétti af þessari fyrirhuguðu heimsókn hoppaði ég nær hæð mína úr kæti, enda mikill aðdáandi til margra ára.

Fyrst heyrði ég nafn leikstjórans í útvarpsþætti Páls Óskars Hjálmtýssonar, Sætt og sóðalegt, á Aðalstöðinni snemma á 10. áratug síðustu aldar. Palli talaði um einhverja ægilegustu hryllingsmynd sem sögur færu af, Suspiria, og ég (óafvitandi) lagði nafnið á minnið.

Ég var reyndar örugglega orðinn meira en tvítugur þegar ég svo loksins sá Suspiria. Það þykir mér frábær mynd og síðan þá hef ég séð öll helstu verk leikstjórans, og sum oftar en einu sinni. Ég er meira að segja svo mikill fanboy að fyrir ofan rúmið mitt hangir forláta Suspiria-veggspjald, og ég verð að viðurkenna að tilhugsunin um að fá meistarann til að árita myndina kitlaði mig töluvert.

Ég suðaði í mínum mönnum á Fréttablaðinu um að fá að taka viðtal við Argento í tilefni Íslandsheimsóknarinnar og sú beiðni mín var samþykkt. Svo loksins á mánudagsmorgninum fyrir tæpum tveimur vikum hringdi ég til Rómaborgar í minn mann og spjallaði um heima og geima, allt í gegnum túlk að sjálfsögðu, en Dario gamli er ekkert sérlega sleipur í enskunni.

Þegar ég sat svo í Bíó Paradís í gær, eftir sýningu á Suspiria (sem ég sofnaði reyndar á), fyrir framan manninn og hlustaði á hann tala fattaði ég hvað svona fanboy-ismi getur verið kjánalegur. Ég tók ekkert með mér til að láta hann árita, ég spurði einskis í Q&A-inu og þó hann hafi labbað framhjá mér hægum skrefum, og ekki einu sinni upptekinn, þá eiginlega meikaði ég ekki að taka í höndina á honum.

Hvað var ég svo sem að fara að segja? „Helló, æ em Haukur, jú nó, ðe djörnalist hú intervjúd jú ðí öðer dei“? Eða segja honum hvað mér fyndist hann frábær? Hvaða gagn hefur hann eða ég að því? Þetta er 72 ára gamall ítalskur maður sem kann varla ensku, veit að öllum þarna inni finnst hann frábær, nennir hann í alvörunni eitthvað hlusta á mig röfla og krota síðan á Phenomena-DVDinn minn?

Nei andskotinn hafi það, ég lét hann í friði. Nikkaði bara kurteisislega til hans og hann nikkaði til baka. Eða kannski var hann bara að nikka einhverjum fyrir aftan mig. Eða kannski er hann með tourette.

Auðvitað sé ég eftir þessu í dag. Hvað var ég eiginlega að spá? Dario fokkings Argento var þarna fyrir framan mig og ég gerði ekki neitt. Fór bara heim að skrabbla á Facebook eins og eitthvað helvítis fífl.

Fimm stjörnur!

Posted in Blogg on 20.6.2012 by snobbhaensn

Í fyrra fengu aðeins þrjár myndir fullt hús stiga hjá mér í Fréttablaðinu og það sem af er þessa árs hafa þær einungis verið tvær. Árið er engu að síður næstum hálfnað og ég hef undanfarið velt því fyrir mér hvort ég sé á réttri leið eða stórkostlegum villigötum.

Ég fer ekki ofan af því að oft finnst mér íslenskir gagnrýnendur helst til gjafmildir á stjörnurnar. Þessu hef ég tekið eftir bæði í skrifum um kvikmyndir og einnig um tónlist. En þar sem ég hef metnað í að standa mig vel í minni vinnu vil ég að sjálfsögðu vera sanngjarn.

Á þessu tímabili sem ég nefndi sá ég engu að síður fullt af frábærum kvikmyndum sem ég gæti meira að segja hugsað mér að sjá aftur, eða jafnvel eiga. Kvikmyndasafn mitt inniheldur reyndar allt frá fimm stjörnu tímalausum meistaraverkum og niður í grautfúlustu kalkúna sem fyrirfinnast (ég á t.d. kvikmyndina I, Robot á DVD). En aðeins fimm kvikmyndir hef ég talið þess verðugar að fá fullt hús stiga (ég kúgaðist smá þegar ég skrifaði þetta).

Til þess að byrja að afsaka mig þá gefur Fréttablaðið aðeins í heilum stjörnum og vegalengdin á milli fjórðu og fimmtu stjörnunnar er óralöng, jafnvel þó fjögurra stjörnu mynd geti verið frábær. Eða hvað? Er það kannski tilætlunarsemi að ætla fimm stjörnu myndum það að vera „fullkomnar“? Nú veit ég reyndar að það er sennilega ekki til neitt sem heitir fullkomnun, sérstaklega ekki í listsköpun, en maður skyldi ætla að verk sem fær fullt hús stiga ætti hálfpartinn að geta rotað hross með listrænum höggþunga sínum.

Kannski má færa rök fyrir því að kvikmyndir sé ekki hægt að dæma endanlega fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Að hin endanlega prófraun verksins sé hvort það standist tímans tönn. Hvort það nái að setja mark sitt á kvikmyndasöguna. Ég er að vísu ekki alveg sammála þessu. Ég þarf allavega ekki að hafa þetta bak við eyrað í minni rýni, enda kvikmyndarýni dagblaðanna í flestum tilfellum hugsuð sem einnota leiðarvísir um hvað sé gaman að sjá í bíó. Þetta þykir mér miður en svona er þetta bara. Fólk hefur ekki áhuga á heilsíðu um Prometheus með morgunkaffinu.

Helst vildi ég losna við stjörnugjöfina fyrir fullt og allt. Mig grunar að meirihluti gagnrýnenda sé sammála mér þar, enda eru þeir eflaust fleiri sem skoða bara stjörnugjöfina en þeir sem lesa umfjöllunina alla. Reyndar þegar ég skrifa þetta þá fyllist ég vonleysi og efasemdum því allt endar þetta á haugunum og eftir 30 ár verður öllum sama um það hvað einhverjum fýlupúka á Fréttablaðinu fannst um einhverja djöfuls mynd um einhvern djöfuls hest.

Vatnið flæðir í bíó

Posted in Blogg on 19.6.2012 by snobbhaensn

Í síðustu viku þusaði ég um vatnsnísku íslenskra bíóhúsa og hvernig þau senda kúnnana inn á klósett til að svala þorsta sínum. Ég nefndi engin nöfn en hef farið í tvö mismunandi kvikmyndahús síðan þá, og nú ætla ég að neimdroppa sem óður væri.

Smárabíó er vinveitt vatnsdrykkjufólki og lumar á sjálfsafgreiðslu-vatnsbrunni, en starfsfólkið færir þér vatn í glasi með bros á vör ef þú biður um það í sjoppunni. Það er meira að segja kalt.

Háskólabíó er einnig sérlegur vinur vatnsins og splæsir í glas fyrir þyrsta. Í hléi er svo vatnsglösum með loki raðað við enda afgreiðslu-borðsins og á krúttlegu A4-blaði til hliðar stendur „VATN“.

Þetta er til mikils sóma og vonandi er ekki langt í að öll bíóin veiti þessa sjálfsögðu þjónustu.

Bíóin vilja að þú étir skít

Posted in Blogg on 12.6.2012 by snobbhaensn

Í stað þess að skrifa hjartnæman inngang um nauðsyn vatns til að viðhalda lífi á jörðu ætla ég að koma mér beint að efninu. Nú hafa nokkur kvikmyndahús tekið upp á því að vísa vatnsbetlurum frá sjoppunni og senda þá í staðinn með glas inn á klósett. Jafnvel þó þeir versli í sjoppunni. Vatnsbetlararnir mega fá gos og popp, nachos og ís, súkkulaði og hlaup (gegn greiðslu að sjálfsögðu), en ef þeir vilja óbragðbætt vatn verða þeir að sækja það úr klósettvaskinum. Lystaukandi ekki satt?

Ég lenti í þessu síðast í gær. Keypti stórt gosglas fyrir annan en bað um vatn fyrir mig (línurnar sko). Afgreiðslustúlkan var alveg til í að taka við fullt af peningum frá mér fyrir gosinu, en hún var ekki til í að snúa sér við og gefa mér vatn úr krananum, sem var bæðevei jafnlangt frá henni og gosmaskínan. Þegar ég afþakkaði klósettglas spurði hún mig hvort ég ætlaði þá bara að fá gosið. Ég velti því fyrir mér hvort það sé algengt að fólk hafi ekki lyst á því að sækja vatn inn á bað og kaupi þess í stað kolsýrt flöskuvatn á uppsprengdu verði.

Er nauðsynlegt að vera svona rosalega gráðugur? Voru svona margir að biðja um vatn úr krananum að afgreiðslan fór öll úr skorðum? Þarf bíóið að fá greitt fyrir hvert einasta handtak sem starfsfólkið gerir, og ef það er ekki hægt að setja verðmiða á það (eins og kranavatn) þá er það ekki í boði? Má ekki líta á það þannig að bíógestir séu búnir að greiða fyrir vatnsgreiðann með því að kaupa popp, já eða bara bíómiðann sinn? Finnst forkólfum kvikmyndahúsanna þeir í alvörunni vera að gera kúnnunum rosalegan greiða ef þeir leyfa starfsfólki sínu að gefa þeim vatn? Varla myndu þeir hleypa mér inn með vatnsflösku að heiman?

Og af hverju viljum við síður fara með tómt glas inn á klósett? Jú vegna þess að þar mígur fólk og skítur. Af sömu ástæðu er fólki ráðlagt að geyma tannburstann sinn ekki nálægt salerninu, vegna þess að þar svífa allskonar sýklar og gerlar um sem óæskilegt er að berist í munn. Maður getur rétt ímyndað sér hversu margfalt fleiri míkróskópískir moðerfokkerar eru í loftinu á almenningsklósetti en á baðinu heima. Allavega ef styrkleiki þvag- og saurlyktar er einhver vísbending. Það má því orða það sem svo að með því að senda viðskiptavini sína inn á klósett með glas séu kvikmyndahúsin að segja þeim að éta skít.