Archive for the Íslenskar kvikmyndir Category

Heillandi hægagangur

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Fréttablaðið, Gagnrýni on 26.10.2012 by snobbhaensn

Hreint hjarta **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Grímur Hákonarson

Kristinn Ágúst Friðfinnsson er prestur á Selfossi sem stendur í deilum við samstarfsfólk sitt og yfirmenn. Honum finnst hafa verið svínað á sér og í þessari einlægu heimildarmynd fylgjumst við með daglegu lífi prestsins í vinnunni jafnt sem utan hennar. Sjálfur er Kristinn reyndar á því að prestar séu aldrei utan vinnunnar og má vera að sannleikskorn leynist í því.

Myndavélin er sem fluga á vegg viðfangsefnisins og fer með honum um víðan völl. Skiptir þá engu hvort hann er á Skype-stefnumóti við eiginkonu sína (sem starfar á Grænlandi) eða í prestsheimsókn hjá syrgjandi fjölskyldu látins manns. Áhorfandinn fær að vera með alls staðar og það gerir myndin bæði raunverulegri og skemmtilegri.

Við fáum nasaþefinn af deilum Kristins við hinn prestinn í kirkjunni og það andar verulega köldu þeirra á milli. Það er grátbroslegt að fylgjast með þeim hlið við hlið boðandi fagnaðarerindið, vitandi af allri óvildinni og karpinu sem á undan hefur gengið. Myndin málar nokkuð einhliða mynd af ástandinu, en skarpir áhorfendur gera sér vafalaust grein fyrir því og í þágu dramatíkur er auðvelt að fyrirgefa það. Og fari hinn presturinn eftir boðskap kristninnar ætti hann að geta gert það líka.

Stíllinn er lágstemmdur og Grímur leikstjóri leyfir fílingnum að ráða för. Sjálfur presturinn er heillandi karakter en talar á köflum óþægilega hægt. Myndavélinni er þó leyft að rúlla áfram og fyrr en varir venst maður hraðanum. Þá smellpassar tónlistin við myndmálið og er notuð sparlega, en líkt og myndin sjálf er hún í rólegri kantinum. Enda er engin ástæða til að flýta sér um of.

Niðurstaða: Afslöppuð mynd um forvitnilegan mann.

Birt í Fréttablaðinu 16.10.2012

Auglýsingar

Get ekki beðið

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Blogg on 29.1.2011 by snobbhaensn

Hafnfirska hasarmyndin Blóðhefnd er loksins að verða tilbúin og samkvæmt Facebook-síðu myndarinnar verður hún frumsýnd núna í vor.  Söguna á bak við myndina þekki ég ekki 100%, en mér skilst hún sé gerð af atvinnulausum sendibílstjóra, Ingó Ingólfs,  sem leiddist aðgerðarleysið í kreppunni og ákvað að nýta færni sína í bardagalistum og gera fyrstu íslensku slagsmálamyndina.

heimasíða kvikmyndarinnar skoðuð má sjá myndir og nöfn allra leikara myndarinnar. Eftir smá gúggl sér maður að flestir leikararnir eru bílstjórar að atvinnu. Gera má því ráð fyrir að þetta séu mestmegnis  fyrrverandi vinnufélagar Ingós, og ég verð að segja að ég er afar spenntur fyrir útkomunni. Það er nefnilega ekki á hverjum degi sem amatör gerir bíómynd á Íslandi.

Trailerinn er vægast sagt safarík blóð- og bardagaorgía. Foley-deildin er svolítið að missa sig, en þrátt fyrir heimilislegan trailerinn hef ég trú á því að Blóðhefnd sé hin besta skemmtun. Ekki væri nú ónýtt að eignast íslenskan Steven Seagal. Eða Van Damme.

Hver vill koma með mér á Blóðhefnd og kasta poppi?

ATH: Ljósmyndirnar eru fengnar að láni af heimasíðu kvikmyndarinnar. Ég vona að Ingó verði ekki pirraður þó ég birti þær hér. Þá gæti ég nefnilega átt von á hringsparki í gamla hattastandinn.

Rokk í Reykjavík – hugleiðingar

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Blogg on 2.11.2010 by snobbhaensn

Kvikmyndasafn Íslands sýnir í kvöld kvikmyndina Rokk í Reykjavík í Bæjarbíói. Í tilefni af því var ég beðinn um að skrifa pistil um kvikmyndina og féllst ég á það. Aðaláhersla pistilsins eru þau gríðarlegu áhrif sem Rokk í Reykjavík hefur haft á íslenska menningu, og þá aðallega á tónlistarlífið. Þó ég taki það ekki fram í pistlinum þá hef ég misgaman af listamönnunum sem koma fram í myndinni. Reyndar eru aðeins fimm hljómsveitir í myndinni sem ég get í einlægni sagst „fíla“. Hvika ég þó hvergi frá yfirlýsingum mínum um þau miklu áhrif sem kvikmyndin (og „aðalpersónur“ hennar) hefur haft á íslenskt músíklíf, og reyndar íslenska nútímalist eins og hún leggur sig.

Hvað um það. Hér er pistillinn:

Rokk í Reykjavík

Ég ætti auðvelt með að skrifa nokkuð langan pistil um kvikmyndina Rokk í Reykjavík. Og það ætla ég einmitt að gera nú. Rokk í Reykjavík er engin venjuleg kvikmynd. Ég ætla meira að segja að ganga svo langt að segja hana hryggjarstykki íslenskrar popp- og rokktónlistarsögu. Allavega á síðustu 30 árum. Að segja hana hafa haft mikil áhrif er það sem á engilsaxnesku myndi kallast „understatement“.

Áður en ég rökstyð þetta er best að kynna myndina lítillega fyrir þeim sem illa þekkja til. Rokk í Reykjavík var frumsýnd á því herrans ári 1982 og er í grunninn afskaplega venjuleg heimildarmynd um tónlist. Listamennirnir sem eru til umfjöllunar í myndinni tilheyrðu margir hverjir nafnlausri neðanjarðarhreyfingu í Reykjavík í upphafi 9. áratugarins. Neðanjarðarhreyfingin var hvorki miðstýrð né skipulögð, heldur samanstóð hún af listamönnum sem sumir kusu að kalla pönkara, en væru eflaust betur skilgreindir sem „jaðarlistamenn 80’s nýbylgjunnar á Íslandi“. Eftirminnilegustu nöfnin úr þessari senu eru hljómsveitir á borð við Fræbbblana, Tappa tíkarrass, Purrk Pillnikk, Þeyr (hljómsveitina sem enginn kann að fallbeygja) og Egó.

Uppbygging myndarinnar er hefðbundin og fléttar viðtölum saman við tónlistarflutning, en tilgangur myndarinnar hefur eflaust fyrst og fremst verið sá að búa til yfirgripsmikla heimild um það sem var að gerast í íslensku neðanjarðarrokki á þessu tveggja ára tímabili sem myndin spannar.

En þá hefst söluræðan mikla. Engan gat nokkurn tímann órað fyrir því hversu víðtæk áhrif listamennirnir í myndinni ættu eftir að hafa á íslenska menningu og samfélag. Þá er ég ekki einungis að tala um hljómsveitirnar sjálfar, heldur kannski fyrst og fremst manneskjurnar sem skipuðu þær og þá nálgun á listsköpun sem þær aðhyllast.

Sú manneskja í myndinni sem náð hefur lengst í alþjóðlegum heimi listarinnar er án nokkurs vafa söngkonan Björk. Í Rokk í Reykjavík er hún krúttlegur unglingur sem hoppar og skoppar um sviðið ásamt félögum sínum í Tappa tíkarrass. Í dag er hún litlu minni goðsögn en mamma poppsins (Madonna) og amma rokksins (Tina Turner). Sennilega er ég að ýkja vinsældir Bjarkar á heimsvísu, en staðreyndin eru engu að síður sú að útlendingar þekkja Björk miklu frekar en Eyjafjallajökul, Bjarna geimfara og íslenska lakkrísinn, sem eru þó allt hlutir sem blása stöðugum vindi í segl hins íslenska þjóðarstolts.

En Björk er langt því frá að vera sú eina úr Rokk í Reykjavík (má ég kalla hana RíR héðan í frá…..plís?) sem rúllað hefur niður brekku listarinnar og hlaðið utan á sig frægðarfönn. Félagi hennar úr Tappa, fyrrum hárprúði Evróvisionfarinn Eyþór Arnalds, varð síðar landsþekktur stjórnmálamaður en flestir muna eftir honum nuddandi nárafiðluna með hljómsveitinni Todmobile.

Þetta er skemmtilegur leikur og ég held því áfram. Sigtryggur Baldursson barði bumbur með hljómsveitinni Þeyr í RíR en var seinna í Sykurmolunum með Björk, dansaði marsbúa cha-cha-cha með Milljónamæringunum undir nafninu Bogomil Font, en þessi maður hefur slegið taktinn með langflestum af ástsælustu tónlistarmönnum þjóðarinnar í meira en tvo áratugi. Einar Örn Benediktsson úr Purrki Pillnikk var einnig í Sykurmolunum með þeim Sigtryggi og Björk, en af öðrum afrekum hans má nefna hávaðalistahópinn Ghostigital, rekstur útgáfufyrirtækisins (og plötubúðarinnar) Smekkleysu og veru hans í núverandi borgarstjórn. Gott ef hann er ekki stjórnarformaður Strætó BS líka. Félagi hans úr Purrki, Friðrik Erlingsson, hefur starfað lengi sem rithöfundur og hefur skrifað fjöldann allan af skáldsögum, kvikmyndahandritum og meira að segja hefur hann séð um Jóladagatal Sjónvarpsins.

Þið ættuð núna að vera farin að skilja hvert ég er að fara. Listamennirnir úr Rokk í Reykjavík voru margir hverjir óþekktir um það leyti sem myndin var gerð, en hafa sáð listrænum fræjum sínum í börn jafnt sem fullorðna um allar götur síðan. Bubbi Morthens, Pálmi Gunnars, Egill Ólafs og fleiri voru reyndar byrjaðir að þenja sig í glymskröttum landans áður en Rokk í Reykjavík kom út. Engu að síður voru þeir hluti af „senunni“ sem myndin fjallar um.

Og þá komum við að tvískiptingunni. Rokk í Reykjavík er nefnilega ekki einungis sú pönkheimild sem margir telja hana vera. Í myndinni er fjöldi sveita sem Hlemmpönkurunum hefur eflaust þótt voðalega lummó. Egill jarmar í hljóðnema, spilandi á svuntuþeysi í hágæða hljóðveri með félögum sínum í Þursaflokknum. Pétur heitinn Kristjáns heldur ræðu um unglingana og rokkið en er í raun minnisvarði um tíma sem var að líða undir lok. Prógressívt hippapopprokkið þótti ekki lengur móðins og þessi atriði sýna stórskemmtilegar andstæður sem saman mynduðu rokkið í Reykjavík.

Leikstjóri myndarinnar, Friðrik Þór Friðriksson, er öllum Íslendingum kunnur sem einn fremsti kvikmyndaleikstjóri þjóðarinnar frá því land byggðist (nánar tiltekið síðustu 30 ár). Myndir hans hafa óútskýranlegt segulafl á afturenda íslenskra bíógesta. Þegar Friðrik gerir kvikmynd þá er varla autt sæti í bíóinu. Það er bara þannig.

Nú eru spássíurnar farnar að þrengja að mér þannig að ætli það sé ekki best að koma sér að kjarna málsins. Hinu íslenska listalífi má í raun skipta í tvo helminga. Fyrir Rokk í Reykjavík og eftir Rokk í Reykjavík. Seinasta íslenska hljómplata sem þú hlustaðir á er að öllum líkindum að einhverju leyti undir áhrifum frá RíR. Ef einhver flytjendanna á plötunni er ekki sonur eða dóttir einhvers sem kom fram í myndinni þá má allavega gera ráð fyrir því að samtals hafi allir þeir sem að plötunni komu séð RíR hundrað sinnum eða oftar.

En burt séð frá hinum stórtæku samfélagslegu áhrifum sem Rokk í Reykjavík hefur haft á hug og hjörtu landsmanna þá hljóta einhverjir að spyrja sig: En hvernig er myndin?

Þú kemst að því í Bæjarbíói.

Bloggsíða Kvikmyndasafns Íslands

Rokk í Reykjavík á Wikipedia

Maðurinn sem gaf öllum myndum fjórar stjörnur…

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Blogg, Gagnrýni on 17.10.2010 by snobbhaensn

Störf mín hjá Fréttablaðinu hefjast á skemmtilegum tíma kvikmynda- ársins. Á haustin og alveg fram að jólum leggja stúdíóin áherslu á frumsýningar mynda sem þykja sigurstranglegar á verðlaunatímabili næsta árs (janúar og febrúar). Óskarinn, Golden Globe, BAFTA og þar fram eftir götunum. Þessar myndir eru því gagnrýnendum ofarlega í huga þegar kemur að árslistagerð og verðlaunatilnefningum.

Fyrstu þrjár myndirnar sem ég hef skrifað um fyrir blaðið fá allar fjórar stjörnur (af fimm). Þetta væri máske saga til næsta bæjar ef ég hefði byrjað í maímánuði, en núna er einfaldlega bara góssentíð í bíó. Ég vona að enginn dragi heilindi mín í efa þrátt fyrir að ég byrji á jákvæðu nótunum. Allt eru þetta prýðilegar myndir sem ég mæli með að sem flestir sjái.

Hér eru umfjallanirnar þrjár:

Allir í gallana!

Brim ****
Leikstjóri: Árni Ólafur Ásgeirsson
Leikarar: Ólafur Egilsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Björn Hlynur Haraldsson, Ólafur Darri Ólafsson og Ingvar E. Sigurðsson

Kvikmyndin Brim er byggð á samnefndu verðlaunaleikriti Jóns Atla Jónassonar sem leikhópurinn Vesturport sýndi á sínum tíma við góðan orðstír. Nú er leikritið orðið að kvikmynd og er það leikstjórinn Árni Ólafur Ásgeirsson sem stendur í brúnni.

Brim segir frá ungri konu sem ræður sig á togarann Jón á Hofi, en skipverjar bátsins eru enn nokkuð andlega laskaðir eftir sjálfsvíg eins þeirra í túrnum á undan. Báturinn er síbilandi ryðhrúga og mannskapurinn er samansafn furðufugla sem eiga erfitt með að venjast landkrabbameinssjúkum kvenmanni um borð. Andrúmsloftið um borð er á köflum hrollvekjandi og andi hins látna virðist hafa tekið sér bólfestu í skipinu og áhöfn þess.

Árni Ólafur heldur vel utan um söguna og virðist hafa sérlega gott auga fyrir sjónrænum smáatriðum og myndmálið er sterkt. Sumum kann að þykja myndin fremur hæg framan af en í tilfelli Brim er það kostur frekar en galli. Hverri persónu er gefið svigrúm til að kynna sig fyrir áhorfandanum og þegar leikar fara að æsast er áhorfandinn því sem næst kominn í pollagallann á ruggandi þilfarið með áhöfninni.

Leikararnir endurtaka hlutverk sín úr leikritinu og auðvelt er að ímynda sér það sem algjöran lúxus að fá að stýra hópi leikara sem allir hafa leikið persónur sínar áður. Hver leikari virðist þekkja sinn karakter vel og góður tími hefur gefist til að fínpússa skapgerð þeirra og takta. Það skilar sér á tjaldið og Brim er því afskaplega vel leikin. Skemmtilegastar eru persónur þeirra Gísla Arnar Garðarssonar og Ólafs Egilssonar en báðir leika þeir undirmálsmenn kryddaða mikilli kómík og sérstöku fasi.

Ég fagna því að ekki er lengur ástæða til að dvelja lengi við hjal um tæknilega úrvinnslu íslenskra kvikmynda. Íslenskar kvikmyndir eru komnar í meistaraflokk hvað útlit og frágang varðar. Fólkið bak við tjöldin hefur staðið vakt sína með sóma við erfiðar aðstæður á sjó og reka þannig smiðshöggið á vel heppnað verkið.

Niðurstaða: Brim er köld og blaut en gerð af ást og hlýju.

[Birtist í Fréttablaðinu 4. október 2010]


Kani í völundarhúsi

The American ****
Leikstjóri: Anton Corbijn
Leikarar: George Clooney, Thekla Reuten, Violante Placido, Paolo Bonacelli

George Clooney kallar sig Jack og er staddur í Svíþjóð á fyrstu mínútum kvikmyndarinnar The American. Þar berst hann við byssuglaða snáða í snjónum og hefur betur. Skömmu síðar gengur hann undir nafninu Edward í smáþorpi á Ítalíu þar sem örlög hans munu ráðast.

Í fyrstu dregst áhorfandinn inn í sögufléttuna en þegar líða tekur á myndina kemur í ljós að hún skiptir ekki máli. Hver mun drepa hvern og af hverju? Hverjir eru sannir bandamenn Ameríkanans og hverjir munu stinga hann í bakið? Edward treystir engum vegna þess að hann er í helvíti. Vingjarnlegur prestur reynir að benda honum á það en líklega er það orðið of seint.

Aftanverð eyrun á George Clooney eru í miklu aðalhlutverki. Við sjáum aftan á hann þar sem hann gengur hægum en ákveðnum skrefum um þröng og tómleg stræti þorpsins, fram og til baka. Það er líkt og hann sé staddur í völundarhúsi án útgönguleiðar.

Það eru engar sprengingar í myndinni. Hún býður áhorfandanum upp á merkilegri og betri hluti en það. Á endanum stoppar sýningarvélin en kvikmyndin heldur áfram. Tveir sólarhringar hafa liðið og ég er ennþá að horfa á The American.

Niðurstaða: Falleg og djörf mynd sem tekur tíma að melta. Þeir sem vilja hasar verða vonsviknir.

[Birtist í Fréttablaðinu 14. október 2010]


Góð í dag, betri á morgun?

The Social Network ****
Leikstjóri: David Fincher
Leikarar: Jesse Eisenberg, Andrew Garfield, Armie Hammer, Justin Timberlake

The Social Network er „Facebook-myndin“ sem allir eru að tala um. Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, var ekki par hrifinn af því að vera gerður að sögupersónu í kvikmynd. Hann er umdeildur maður og margir telja að hann eigi velgengni sína öðrum að þakka. Myndin reynir að varpa ljósi á það hvers konar mann hann hefur að geyma, og hvernig Facebook-fyrirbærið varð vinsælla en Jesús og Bítlarnir.

Flestir ættu að þekkja leikstjóra myndarinnar, en það er sjálfur David Fincher, maðurinn sem færði okkur myndir á borð við Zodiac, Fight Club og hina klassísku Se7en. Fincher hefur ávallt verið mikill stílisti og einhverjir hafa kvartað undan því að hann eigi erfitt með að hemja sig þegar kemur að útlitsþáttum líkt og myndatöku, klippingu og brellum. Á götumáli eru slíkar hneigðir stundum kallaðar „rúnk“. Afsakið orðbragðið.

Hann gerir sig þó ekki sekan um slíkt í The Social Network. Persónurnar halda frásögninni gangandi og vel skrifuðum samtölum handritshöfundarins er leyft að baða sig í mesta sviðsljósinu. Leikarahópurinn er nokkuð öflugur og er það aðalleikarinn Jesse Eisenberg sem á mesta hrósið skilið. Hann hefur hingað til verið þekktur sem „Michael Cera fátæka mannsins“ en hér fær hann tækifæri til að sanna sig sem alvöru leikari og stenst prófið með glæsibrag.

Ég hlakka mikið til að sjá myndina eftir áratug eða tvo. Hún á eftir að verða stórskemmtileg heimild um merkilegt menningarfyrirbæri sem allir þekkja í dag, en enginn veit hvort muni halda velli til framtíðar.

Niðurstaða: The Social Network er vel heppnuð. Og hún er ekkert verri þó þú sért ekki á Facebook.

[Birtist í Fréttablaðinu 15. október 2010]

Bjarnfreðarson [2009]

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Gagnrýni on 18.5.2010 by snobbhaensn

Verandi snobbhænsn fer fátt meira í taugarnar á mér en afþreyingartíska pöpulsins, og það sem „slær í gegn“ á yfirleitt lítið erindi við minn smekk. Vinsælar gamanmyndir síðustu ára finnst mér meira og minna sorp. Superbad var ekkert fyndin, The 40-Year-Old Virgin var slöpp, The Hangover var flatneskja út í gegn og ég hafði ekki einu sinni neitt sérstaklega gaman af Tropic Thunder.

Nætur-, Dag- og Fangavaktin voru því síður en svo ofarlega á lista mínum yfir eitthvað sem ég nennti að tékka almennilega á. Fyrir mér var þetta bara Jón Gnarr að vera leiðinlegur (sem er jú oft mjög fyndið) og Pétur Jóhann að segja leiðinlega frasa.

Fyrir nokkrum vikum tók ég viðtal við Jón Gnarr fyrir tímaritið Monitor og mér þótti frekar leiðinlegt hvað ég var lítið inni í þessum vinsælu seríum og ákvað því að horfa á þær allar, og þá sérstaklega til þess að ég gæti horft á lokahnykkinn, kvikmyndina Bjarnfreðarson.

Mér þótti þessir þættir töluvert merkilegri en ég hafði ímyndað mér. Og ef við skiptum þessu í fjögur aðskilin atriði, Næturvaktina, Dagvaktina, Fangavaktina og Bjarnfreðarson, þá kemur í ljós að öll eru þau ólík innbyrðis, þrátt fyrir að innihalda sömu persónur og einhverskonar gegnumgangandi söguþráð. Næturvaktin er lo-fi vandræðalegheitagrín í anda The Office og Curb Your Enthusiasm. Dagvaktin er eiginlega hálfgert drama, kryddað kolsvörtum og mjög evrópskum húmor. Fangavaktin er máske aðgengilegust, meira brosleg en fyndin, og góður undirbúningur fyrir kvikmyndina. Kvikmyndin sjálf er síðan það sem er til umfjöllunar hér.

Bjarnfreðarson segir sögu þrímenninganna Georgs Bjarnfreðarsonar, Daníels og Ólafs Ragnars eftir að Georg losnar úr fimm ára fangelsisvist. Inn á milli atriða úr nútímanum fylgjumst við með uppvaxtarárum Georgs, og í þeim atriðum er Georg túlkaður af nokkrum misgömlum leikurum, en Bjarnfreður fortíðarinnar er leikin af Ágústu Evu Erlendsdóttur. Kvikmyndin eyðir mestu púðri í að útskýra það af hverju Georg er eins og hann er, hvað hefur mótað hann sem einstakling, og hvernig hann reynir að losa sig úr gamla farinu og takast á við lífið utan múranna.

Jón Gnarr sýnir það og sannar að hann er einn af okkar allra bestu leikurum, og auk þess að vera svívirðilega fyndinn glæðir hann Georgi dramatískri dýpt og gerir hann í raun mun áhugaverðari persónu heldur en nokkurn tímann í þáttunum. Þetta er að sjálfsögðu svolítið á kostnað grínsins, en Bjarnfreðarson er ekki jafn fyndin og t.d. Næturvaktin og Fangavaktin. Það kemur þó ekki að sök, því að það er talsvert í myndina spunnið þrátt fyrir að hún haldi gríninu í aukahlutverki.

Aðrir leikarar standa sig mjög vel. Pétur Jóhann er skemmtilegur sem áður, en það er mín tilfinning að Dagvaktin hafi verið serían hans Péturs (Ólafs Ragnars). Í þeirri seríu toppaði hann í leik, og sagan hans er áhugaverðust. Í Bjarnfreðarson er Ólafur Ragnar aftur orðin sú aukapersóna sem hann var í upphafi. „Aukapersóna“ er kannski ekki alveg rétta orðið, en hann hefur yfirleitt verið svona comic-relief, eins undarlega og það kann að hljóma í gamanþáttum. Jörundur er góður í hlutverki Daníels, og er hans persóna ennþá jafn aumkunarverð og hún hefur ávallt verið, en í lokin glittir þó í vonarglætu fyrir hann. Ágústa Eva er góð, sem og minni persónur.

Ég tel það hafa verið rétta ákvörðun að skilja við persónurnar sem fylgdu þeim í Fangavaktinni. Þó vissulega hefði verið gaman að vita hvað varð um Loðfílinn (Ólaf Darra) og Kenneth Mána (Björn Thors) hefði því sennilega verið ofaukið hér. Mér finnst þó vert að taka það fram að snobbhænsnið telur frammistöðu Bjarnar Thors í Fangavaktinni eina þá bestu sem sést hefur í sögu íslenskrar kvikmynda-/sjónvarpsþáttagerðar.

Ég hef nú þann sið að hafa á orði hversu vel heppnuð tæknileg atriði íslenskra mynda eru. Ástæða þess er sú að íslenskar kvikmyndir hafa ekki alltaf verið jafn tæknilega fullkomnar og þær eru að verða í dag. Bjarnfreðarson er fallega tekin, leikmynd og búningar eru fyrsta flokks, og hljóðið er alveg ágætt.

Ég veit ekki hvort ég hefði haft gaman af myndinni hefði ég ekki verið búinn að kynna mér þættina, en Bjarnfreðarson er þrusu mynd, gerð af fagmennsku og listrænum metnaði, og lokar sögunni um Georg Bjarnfreðarson og félaga með glæsibrag. Þeir örfáu vankantar sem hænsnið fann eru tittlingaskítur og verða ekki tíundaðir hér. Tjah, nema einhver biðji um það sérstaklega.

Reykjavík – Rotterdam [2008]

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Gagnrýni on 19.4.2010 by snobbhaensn

Fyrir 10 árum síðan var ég staddur á Hótel Örk í slagtogi með vini mínum, sem var að taka upp einhverja árshátíð á myndbandstökuvél (líklega á Super VHS). Ég var vel við skál, hljómsveitin Í svörtum fötum lék fyrir dansi (gott ef þeir spiluðu ekki Friends-lagið átta sinnum þetta kvöld) og Skari skrípó sýndi töfrabrögð. Þegar fólk var farið að tínast inn á herbergi sín (við gistum þarna uppfrá) ráfaði ég um hótelgangana í leit að okkar herbergi. Á einum ganginum stendur Skari sjálfur og er að pakka töfradótinu sínu niður í töskur. Eins og ölvuðum leiðindasegg sæmir fór ég að sjálfsögðu að tala við hann. Ég veit ekki hvort honum leiddist félagsskapur minn eða ekki (hann feikaði það þá allavega ágætlega) en mér fannst ég tilneyddur til þess að spyrja hann hvenær mætti eiga von á nýrri kvikmynd frá honum. Hann sagði að það gæti liðið talsverður tími þangað til, hann hefði ekki efni á að fjármagna slíkt sjálfur, Kvikmyndasjóður væri nokkuð harður heim að sækja um þær mundir, og hann ætlaði að einbeita sér að töfrabrögðunum um sinn.

Átta árum síðar sendi Óskar frá sér sína næstu kvikmynd, Reykjavík – Rotterdam. Ég verð að viðurkenna það að spennan hafði dvínað umtalsvert eftir nýrri mynd frá leikstjóranum. 90’s-myndirnar hans fannst mér eldast illa, og stiklur úr Reykjavík – Rotterdam bentu til þess að um enn eina misheppnuðu íslensku glæpamyndina væri að ræða („EF ÞÚ KEMUR EKKI MEÐ STÖFFIÐ ÞÁ ERTU DAUÐUR!!!“). Mér lá ekkert á að sjá myndina, en hef nú loksins látið verða af því, eftir að hafa heyrt um hana ágætis hluti.

Baltasar Kormákur leikur Kristófer, fyrrverandi spírasmyglara á skilorði, sem vinnur sem öryggisvörður og á í vandræðum með að ná endum saman fjárhagslega. Þegar leiguíbúð fjölskyldunnar er sett á sölu, og Kristófer sér ekki fram á að geta keypt íbúð í bráð, fær hann sig fullsaddan af brauðstritinu og fellst á það að fara í einn smygltúr til viðbótar. Hann fær pláss sem messagutti á vöruflutningaskipi á leið í 12 daga siglingu til Rotterdam. En áður en langt um líður er Kristófer búinn að skapa sér aðstæður sem óvíst er að hann ráði við. Ég fer ekki nánar út í einstakar söguflækjur og smáatriði, enda er tilgangur bloggs míns ekki sá að endursegja söguþræði kvikmynda í rituðu máli.

Ég vind mér þess í stað beint í það að ausa myndina lofi. Já, Reykjavík – Rotterdam er best heppnaða íslenska spennumynd frá upphafi. Mögulega eina vel heppnaða íslenska spennumynd frá upphafi? Það er kannski ósanngjarnt að staðhæfa það. Ég hef ekki séð allar íslenskar spennumyndir sem framleiddar hafa verið, en í flokki spennu-þrillera hlýtur þessi mynd að standa framarlega, eða jafnvel fremst.

Þar vegur skemmtileg og spennandi saga nokkuð þungt. Það er nokkuð grunnt á persónusköpun á heildina litið, en persóna Kristófers er þó undantekning, enda aðalpersóna og fantagóð sem slík. Kristófer fær athyglisverða forsögu, sem og sambúð hans við eiginkonu sína, og öllum mikilvægum atriðum fortíðar er laumað snyrtilega inn í gífurlega vel skrifuð samtöl sem leikarar flytja áreynslulítið. Og já, ég er ennþá að tala um íslenska spennumynd.

Baltasar er stórskemmtilegur og fær áhorfandann á sitt band, þrátt fyrir það að hann leiki krimma, en áhorfendur eru jú frekar til í að líta framhjá smygli á spíra heldur en eiturlyfjasmygli. Þó verður maður að spyrja sig hvort eitthvað sé um spírasmygl á Íslandi í dag. Ekki veit ég það. Ingvar E. Sigurðsson er trúverðugur í hlutverki Steingríms, besta vinar Kristófers, og það er gaman að sjá Ingvar loksins leika eitthvað annað en hvunndagshetju með default-svip. Smærri hlutverk eru ekki síðri, og það er nánast sama hvar stikkprufan er tekin, leikhópurinn er sannarlega fyrsta flokks. Já, ennþá að tala um íslenska spennumynd.

Leikstjórn Óskars er til fyrirmyndar, og ég vona að íslenskir kvikmyndaleikstjórar skikki sjálfa sig til þess að horfa á þessa mynd í hvert sinn sem þeir undirbúa nýja spennumynd. Vandamálið við íslenskar spennumyndir hefur hingað til verið það að þær eru of ýktar. Áhorfandanum er kippt inn í heim sem honum finnst ótrúverðugur, þar sem glæpamenn tala íslensku sem hljómar eins og hún sé beinþýdd úr glæpamyndum Hollywood, blóta allt of mikið, illmennin eru svo ill að maður hefur ekki einu sinni gaman að þeim, kvenhlutverk eru lítil og ómerkileg (einskorðast yfirleitt við að vera undirgefnar hækjur hrottafenginna karlmanna sem berja þær og öskra „HALTU KJAFTI HELVÍTIS MELLAN ÞÍN EÐA ÉG NAUÐGA ÞÉR!!!“ á meðan þær öskra og grenja), og allir virðast bera skotvopn á gervi-Íslandi þar sem ekki einn einasti lögreglumaður er sjáanlegur.

Þrátt fyrir að hafa enga innsýn inn í undirheima Íslands, og varla svo mikið sem yrt á einn einasta stórglæpamann um ævina, þá finnst mér heimur Óskars í þessari mynd trúverðugur. Óskar hefur verið á bremsunni allan tímann, enda hef ég hann grunaðan um að deila skoðunum mínum á íslenskum spennumyndum, allavega að hluta. Tæknileg atriði líkt og myndataka, klipping og hljóð eru leyst fagmannlega og án þess að draga sérstaka athygli að sjálfum sér.

Já, loksins kom að því. Allt í myndinni virkar og allir sem að henni komu eiga heiður skilinn. Og já, ég er ennþá að tala um íslenska spennumynd.

Reykjavík Whale Watching Massacre [2009]

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Gagnrýni on 28.9.2009 by snobbhaensn

RWWM_teaser

Þegar ég sá veggspjaldið hér fyrir ofan varð ég svo spenntur að mér tókst að gleyma kvikmyndahryðjuverkum Júlíusar Kemp á tíunda áratugnum. Blossi 810551 er fyrir löngu orðin fræg af endemum enda svo yfirgengilega léleg að Kemp tók sér meira en áratug í hvíld frá leikstjórn eftir öll ósköpin. Eini ljósi punkturinn við þá mynd voru mjólkurhvít júgrin á Þóru Dungal, sem hossuðust í slow-motion á meðan frontmaður Bubbleflies giljaði hana í sundlaug. Hvað er Þóra annars að gera í dag?

En teaser-veggspjald Reykjavík Whale Watching Massacre er svo fáránlega smekklegt og spennandi í allri sinni Saul Bass-ísku dýrð að ég ákvað samstundis að sjá myndina á frumsýningardegi.

Það liðu þó tvær vikur frá frumsýningardeginum þar til að ég dratthalaðist í bíó til að sjá hana. Ég var búinn að heyra hrikalega hluti um myndina frá bókstaflega öllum, og spenningurinn minnkaði dag frá degi.

Í stuttu máli fjallar Reykjavík Whale Watching Massacre um hóp ferðamanna sem skellir sér í hvalaskoðun á Faxaflóanum í gömlum fúadalli sem Gunnar Hansen stýrir. Hann er best þekktur sem keðjusagarmorðinginn Leatherface úr kvikmyndinni The Texas Chain Saw Massacre frá árinu 1974. Gunnar er Íslendingur í húð og hár þrátt fyrir að hafa flust til Bandaríkjanna ungur að árum og segist sjálfur vera búinn að glata íslenskunni að mestu. Fyrir klaufaskap ofurölvaðs Fransmanns um borð í bátnum lætur Gunnar lífið og ferðamennirnir reka stjórnlaust um straumþungan flóann í von um hjálp. Hjálpin berst á endanum, en hún er í formi morðóðrar fjölskyldu sem siglir um firðina umhverfis landið, höggvandi og stingandi.

rwwm1

Reykjavík Whale Watching Massacre er B-mynd. Á því leikur enginn vafi. Ég var eilítið smeykur um að miklar væntingar mínar til myndarinnar myndu sljóvga dómgreind mína og að ég myndi hreinlega pína sjálfan mig til þess að þykja hún frábær. Það var þó aldrei þörf á slíkum píningum.

Myndin skýst beint í fyrsta sæti yfir blóðugustu kvikmyndir íslenskrar kvikmyndasögu. Tæknibrellurnar eru skemmtilegar og oft á tíðum sannfærandi. Afhausanir og aflimanir myndarinnar eru gerðar af mikilli ástríðu, svo mikilli að maður fyrirgefur Júlíusi gervilegan tölvuhvalinn í lok myndarinnar.

Leikararnir eru í miklu stuði þrátt fyrir að vera helst til margir, en það er einnig fyrirgefið því að Júlíus virðist hafa gert sér grein fyrir því að fleiri persónur bjóða upp á enn fleiri blóðug dráp.

Ánægðastur var ég þó með þá staðreynd að myndin virkar. Ég hló með myndinni en ekki að henni. Það eru góð meðmæli frá manni sem alla jafna hefur óbeit á gamanmyndum, enda eru þær upp til hópa innihaldslítil dægrastytting fyrir ómerkinga og vitlaust fólk. Ég átti von á póstmódernískri* hryllings-gamanmynd og myndin stóð sig í stykkinu sem slík. Ekki bara sem flott veggspjald og kómískur titill.

rwwm2

* Póstmódernismi er hugtak sem nauðsynlegt er að kunna góð skil á ætli maður sér stóra hluti í hörðum heimi kvikmyndasnobbsins. Ég mun reyna að nota hugtakið sem mest í skrifum mínum á þessari síðu.