Archive for the RIFF Category

RIFF – Takk fyrir mig

Posted in Blogg, Gagnrýni, RIFF on 8.10.2012 by snobbhaensn

Þá er RIFF 2012 lokið og allt í allt sá ég 13 myndir. Það er sæmilegt í ljósi þess að ég neyddist til að vera hálf-vanvirkur fyrri hluta hátíðar. Síðustu tvær myndirnar sá ég í gærkvöldi og báðar voru þær skandinavískar. Hin sannsögulega Kon-Tiki er norsk og segir frá fífldjarfri flekasiglingu landkönnuðarins Thors Heyerdal frá Perú til Pólýnesíu árið 1947. Þetta er gríðarlega íburðarmikil próduksjón og sú allra dýrasta sem ráðist hefur verið í á Norðurlöndunum. Myndin er hrikalega flott, þrælskemmtileg og bráðfyndin, en það er grunnt á dramanu. Það er líka alveg í lagi stundum.

 

Seinni myndin var sjálf lokamynd RIFF, The Hunt eftir Thomas Vinterberg, en í henni er leikskólastarfsmaður í litlum bæ í Danmörku sakaður um að misnota barn kynferðislega. Samfélagið fer á annan endann og andrúmsloft myndarinnar er þrúgandi og óþægilegt. Myndin er frábær og Mads Mikkelsen sýnir stórleik í aðalhlutverkinu. Þá fannst mér bláendirinn sérstaklega sterkur en samferðamaður minn var mér ósammála.

Hvað um það, 13 myndir í heildina og aðeins ein þeirra fannst mér slök (Og We Are Legion var meh). Það er frábært hlutfall sem ég veit ekki hvort skrifast á gæðastjórnun RIFF eða það að ég hafi hreinlega grísað á allar réttu myndirnar. Skipuleggjendur mega þó vera stoltir af vinnu sinni og það er mín tilfinning að hátíðin í ár hafi markað kaflaskil í sögu RIFF. Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í því annað en huglægt stemningarmat mitt, en mér er farið að sýnast andrúmsloftið og spenningurinn líkjast Airwaves meir og meir.

Ég vona samt að á næsta ári verði hádegissýningum bætt við. 14:00-sýningarnar sem ég fór á voru vel sóttar og ég er handviss um að 12:00-sýningar væru það líka. Þá gæti maður séð enn fleiri myndir. Lúxusvandamál? Þaðheldégnú!

Takk fyrir mig RIFF!

Auglýsingar

Næstsíðasti í RIFF

Posted in Blogg, Gagnrýni, RIFF on 7.10.2012 by snobbhaensn

Gærkvöldið á RIFF var ögn meira upplífgandi en föstudagskvöldið og lagði ég leið mína í Háskólabíó til að sjá tvær myndir. Searching For Sugar Man er sú mynd á hátíðinni sem ég hef heyrt flesta mæla með. Segir hún frá dularfullri leit að lítið þekktum tónlistarmanni sem enginn veit hvort er lífs eða liðinn. Sögur herma að hann hafi skotið sig í hausinn á tónleikum. Aðrir vilja meina að hann hafi kveikt í sér. Þessi magnaða mynd stóð undir væntingum, er gríðarlega vel gerð og sagan sjálf er lyginni líkust. Ég mæli ekki bara með myndinni, heldur skipa ég þér að sjá hana eins og skot. Hún er æði.

Seinni mynd kvöldsins var Woody Allen: A Documentary, nokkuð vönduð en þó ekki hnökralaus heimildarmynd um þennan magnaða leikstjóra og grínista. Þetta er voða beisik. Viðtöl við Woody og samstarfsfólk, klippur úr myndunum hans, svipmyndir úr daglegu lífi hans o.s.frv. Þrælskemmtilegt fyrir aðdáendur og eflaust ágætt fyrir hina, en ferill Woody hefur verið bæði langur og dramatískur. Miðað við allt sem á hefur dunið er þetta kannski helst til mikið drottningarviðtal. En hvað um það, fínasta mynd og inniheldur margar af mínum uppáhalds Woody-senum. Saknaði þó mannsins sem fór úr fókus.

Í kvöld lýkur RIFF. Ég ætla að sjá tvær myndir. En fyrst ætla ég aðeins að liggja.

RIFF-dugnaður

Posted in Blogg, Gagnrýni, RIFF on 6.10.2012 by snobbhaensn

Ég hélt mig við Paradísina í gær og sá þar heilar þrjár myndir á RIFF.

Indie Game: The Movie segir frá bandarískum tölvuleikjahönnuðum í óháða geiranum og hvernig þeir leggja geðheilsuna að veði við listsköpun sína. Flestir eru þeir félagslega á skjön við normið en ástríðan drífur þá áfram og maður á erfitt með að halda ekki með þeim (fyrir utan einn þeirra, sem maður á stundum erfitt með að halda með). Myndin er skemmtileg og nokkuð vel gerð, og vekur upp ýmsar spurningar varðandi tölvuleiki yfir höfuð og listrænt gildi þeirra.

Að tölvuleikjunum loknum var röðin komin að kynferðislega brenglaða austurríska tvíeyki kvöldsins. Í kvikmyndinni Still Life kemst ungur maður að hræðilegu leyndarmáli föður síns og fjölskyldulífið fer á annan endann í kjölfarið. Takturinn er gríðarlega hægur og þessi tæplega 80 mínútna mynd er lengi að líða. Þó fer því fjarri að áhorfandanum leiðist, en það er vissulega lítið stuð í Still Life. Ég var eiginlega bara þrælsáttur við hana og fannst hún gera umfjöllunarefninu góð skil, án þess að missa sig í einhverjum sleazy-heitum, að einu atriði undanskyldu (er að hugsa um að skrifa um það spes pistil við tækifæri).

Leikstjóri Still Life (Sebastian nokkur Meise) átti annan fulltrúa í Paradísinni í gær, en það var heimildarmyndin Outing. Í henni fylgjumst við með þýskum fornleifafræðinema sem er haldinn barnagirnd. Hann segist aldrei hafa látið undan hvötum sínum og talar opinskátt um þær. Í byrjun dáist maður af hugrekki hans en fljótlega sér maður hvernig hann gengur sífellt lengra, bæði í orðum og gjörðum, og maður spyr eiginlega ekki að leikslokum. Áhugavert efni og erfið mynd, en fjandi fróðleg, það verður að segjast.

Ég gæti skrifað meira um allar þessar myndir, og hver veit nema ég geri það, en fyrst er það meira bíó.

Lífið eftir Argento

Posted in Blogg, RIFF on 5.10.2012 by snobbhaensn

Nú stendur RIFF-hátíðin sem hæst og heiðursgestur hátíðarinnar, ítalski leikstjórinn Dario Argento, hefur fengið mikla og verðskuldaða athygli. Þegar ég frétti af þessari fyrirhuguðu heimsókn hoppaði ég nær hæð mína úr kæti, enda mikill aðdáandi til margra ára.

Fyrst heyrði ég nafn leikstjórans í útvarpsþætti Páls Óskars Hjálmtýssonar, Sætt og sóðalegt, á Aðalstöðinni snemma á 10. áratug síðustu aldar. Palli talaði um einhverja ægilegustu hryllingsmynd sem sögur færu af, Suspiria, og ég (óafvitandi) lagði nafnið á minnið.

Ég var reyndar örugglega orðinn meira en tvítugur þegar ég svo loksins sá Suspiria. Það þykir mér frábær mynd og síðan þá hef ég séð öll helstu verk leikstjórans, og sum oftar en einu sinni. Ég er meira að segja svo mikill fanboy að fyrir ofan rúmið mitt hangir forláta Suspiria-veggspjald, og ég verð að viðurkenna að tilhugsunin um að fá meistarann til að árita myndina kitlaði mig töluvert.

Ég suðaði í mínum mönnum á Fréttablaðinu um að fá að taka viðtal við Argento í tilefni Íslandsheimsóknarinnar og sú beiðni mín var samþykkt. Svo loksins á mánudagsmorgninum fyrir tæpum tveimur vikum hringdi ég til Rómaborgar í minn mann og spjallaði um heima og geima, allt í gegnum túlk að sjálfsögðu, en Dario gamli er ekkert sérlega sleipur í enskunni.

Þegar ég sat svo í Bíó Paradís í gær, eftir sýningu á Suspiria (sem ég sofnaði reyndar á), fyrir framan manninn og hlustaði á hann tala fattaði ég hvað svona fanboy-ismi getur verið kjánalegur. Ég tók ekkert með mér til að láta hann árita, ég spurði einskis í Q&A-inu og þó hann hafi labbað framhjá mér hægum skrefum, og ekki einu sinni upptekinn, þá eiginlega meikaði ég ekki að taka í höndina á honum.

Hvað var ég svo sem að fara að segja? „Helló, æ em Haukur, jú nó, ðe djörnalist hú intervjúd jú ðí öðer dei“? Eða segja honum hvað mér fyndist hann frábær? Hvaða gagn hefur hann eða ég að því? Þetta er 72 ára gamall ítalskur maður sem kann varla ensku, veit að öllum þarna inni finnst hann frábær, nennir hann í alvörunni eitthvað hlusta á mig röfla og krota síðan á Phenomena-DVDinn minn?

Nei andskotinn hafi það, ég lét hann í friði. Nikkaði bara kurteisislega til hans og hann nikkaði til baka. Eða kannski var hann bara að nikka einhverjum fyrir aftan mig. Eða kannski er hann með tourette.

Auðvitað sé ég eftir þessu í dag. Hvað var ég eiginlega að spá? Dario fokkings Argento var þarna fyrir framan mig og ég gerði ekki neitt. Fór bara heim að skrabbla á Facebook eins og eitthvað helvítis fífl.

Skylduáhorf

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni, RIFF on 5.10.2012 by snobbhaensn

Call Me Kuchu ***** (5 stjörnur)
Leikstjórn: Katherine Fairfax Wright, Malika Zouhali-Worrall

Samkynhneigð er ólögleg í Úganda og viðurlögin við henni eru allt að 14 ára fangelsisvist. Árið 2009 var lagt frumvarp til þingsins þess efnis að herða refsingar við samkynhneigð til muna. Í framhaldinu gæti lífstíðarfangelsi og jafnvel dauðarefsing beðið þeirra sem gerðust sekir um að hneigjast til sama kyns. Í þessari frábæru heimildarmynd fylgjumst við með aktívistum sem berjast gegn ólögunum og fyrir almennum réttindum samkynhneigðra og transfólks í landinu.

Myndin notast ekki við nein töfrabrögð til að kalla fram tilfinningar. Blákaldur raunveruleikinn nægir, og hér er hann svo sannarlega lygilegri en skáldskapur. Um 95% íbúa Úganda segjast vera mótfallnir samkynhneigð og kristni hefur gífurleg ítök innan samfélagsins. Andstyggilegir fordómapésarnir skýla sér á bak við trúarbrögðin og reglulega missti ég nánast andlitið yfir því sem dundi á aðalsöguhetjunum.

Og ég segi „hetjunum“, vegna þess að aðalpersónurnar í Call Me Kuchu eru sannkallaðar hetjur, og myndin er á köflum eins og spennutryllir. Hluti myndarinnar gerist í réttarsal og höfuðandstæðingur aktívistanna, hatursfullur ritstjóri vikublaðs í Kampala (höfuðborgar Úganda), er eftirminnilegri og ógeðfelldari skúrkur en meirihluti þeirra sem hasarhetjur Hollywood-mynda 9. áratugarins áttu í höggi við. En illmennin hér eru raunveruleg og reiðin og sorgin sem þau framkalla hjá áhorfandanum er það einnig.

En þrátt fyrir öll ósköpin sýnir myndin okkur heiminn handan myrkursins, og rétt eins og aktívistarnir sjálfir glatar hún aldrei trúnni á hið góða og fagra. Þegar upp er staðið er Call Me Kuchu áhrifamesta og ein allra besta heimildarmynd sem sést hefur lengi.

Niðurstaða: Þessa verður þú að sjá.

Birt í Fréttablaðinu 5.10.2012

Leikstjórar sem elska fiðlur

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni, RIFF on 4.10.2012 by snobbhaensn

90 Minutes ** (2 stjörnur)
Leikstjórn: Eva Sørhaug
Leikarar: Bjørn Floberg, Aksel Hennie, Annmari Kastrup, Mads Ousdal, Pia Tjelta, Kaia Varjord

Hin norska 90 Minutes segir sögu þriggja karlmanna sem tengjast ekki á neinn hátt, en eiga þó ýmislegt sameiginlegt. Fyrst fylgjumst við með eldri manni sem þaulskipuleggur morð á konunni sinni. Næstur er fráskildi lögreglumaðurinn sem þráast við að yfirgefa heimili sinnar fyrrverandi. Og að lokum erum við stödd í íbúð þar sem ungur fíkill heldur barnsmóður sinni bundinni við hjónarúmið, á milli þess sem hann nauðgar henni og misþyrmir.

Persónusköpunin er vel af hendi leyst og allar sögurnar þrjár eru áhugaverðar til að byrja með. Leikararnir standa sig allir með mikilli prýði og þar liggur helsti styrkur myndarinnar. Þá er myndatakan bæði áferðarfalleg og fjölbreytileg, sem myndar skemmtilegt mótvægi við grámóskulegan fábreytileika leikmyndarinnar.

En þó öll fyrrnefnd atriði gangi upp þarf meira til. Kynbundið ofbeldi er raunverulegt vandamál en til að gera því góð skil í kvikmynd þarf að feta ansi þröngan stíg, og það tekst alls ekki hér. Yfirgengileg framsetningin skemmir góðan efnivið og grafískt ofbeldið er án sýnilegs tilgangs. Dramatíkinni er haldið alveg við þolmörkin nær allan tímann og þegar leikstýran skrúfar (ítrekað) frá strengjasveitinni ýtir hún myndinni langt yfir strikið. Að ósköpunum loknum er áhorfandinn andlega uppgefinn, en einskis vísari.

Niðurstaða: Vel leikin og fallega tekin. En það dugir ekki til.

Birt í Fréttablaðinu 4.10.2012

Fíllinn í herberginu

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni, RIFF on 4.10.2012 by snobbhaensn

Meet the Fokkens **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Gabrielle Provaas, Rob Schröder

Sjötugu tvíburasysturnar Martine og Louise Fokkens hafa í rúm 40 ár verið vændiskonur í Amsterdam og eru enn að. Önnur þeirra hætti reyndar að stunda samfarir fyrir tveimur árum sökum gigtveiki, en flengingar og drottnunarleikir hennar njóta enn nokkurra vinsælda meðal vændiskaupenda.

Þessar skrautlegu systur hafa gengið í gegnum margt á lífsleiðinni, verið beittar ofbeldi og þurft að sjá fyrir fjölskyldunni með vafasömum hætti. Í dag er raunin önnur, en fastar í viðjum vanans halda þær uppteknum hætti og munu eflaust gera þar til yfir lýkur. Þær eru slarkfærir listmálarar og sinna því áhugamáli af ástríðu. Maður veltir því fyrir sér hvort þær hefðu náð árangri á því sviði hefði einhver haft trú á þeim. Eða þær sjálfar.

Meet the Fokkens er vel gerð og þrælskemmtileg heimildarmynd um mikla furðufugla. Skræpótt (og samstæð) föt tvíburanna hætta þó fljótlega að vera fyndin þegar gríman fellur, og við blasir hversdagslegur breyskleiki mannsins í sinni döprustu mynd. Túristarnir í Rauða hverfinu labba flissandi framhjá glugga systranna og sjá þeim bregða fyrir í sekúndubrot (fínasta krydd í ferðasöguna) en gera sér eflaust ekki grein fyrir að þarna hafa þær húkt allt sitt líf.

Myndin stundar þó ekki neina djúpköfun af viti. Dramatíkin leynist í því sem við fáum ekki að vita. Fokkens-systurnar eru hressar á yfirborðinu og það er myndin líka. En það er risatór fíll í herberginu.

Niðurstaða: Þú munt aldrei gleyma Fokkens-systrunum.

Birt í Fréttablaðinu 29.9.2012