Archive for the Gestahænsni Category

Gestahænsnið: Siggi Pönk

Posted in Gestahænsni, Viðtöl on 29.2.2012 by snobbhaensn

Sigurður Harðarson, betur þekktur sem Siggi Pönk, er í (allavega) fjórum hljómsveitum auk þess sem hann hefur sinnt slösuðum Íslendingum á „Slysó“ í fjöldamörg ár. En þessi 44 ára gamli húðflúraði harðkjarna-jálkur er einnig sérlegur áhugamaður um kvikmyndir. Snobbhænsnið spurði Sigurð spjörunum úr.

Hvað ertu að gera og hvað er framundan?
Ég er núna á flakki með konunni minni, Manon, en hún er upphaflega hollensk. Við flugum til Boston og heimsóttum vini þar (þegar maður hefur sett upp tónleika á Íslandi fyrir erlendar DIY hljómsveitir eignast maður vini um allan heim), tókum Greyhound til New York (mjög þægileg fjögurra tíma rútuferð) og gistum hjá gömlum Straight Edge/Vegan/Hardcore vini Manon þar. Síðan flugum við til Bonaire, sem er pínulítil eyja í karabíska hafinu, fyrrum hollensk nýlenda og margir Hollendingar sem búa hér og þar með tengdapabbi sem býr hér hálft árið. Við tókum þetta flakk núna því fyrir liggur að flytjast búferlum til Brighton í Suður-Englandi af menningarlegum ástæðum (ekki fjárhagslegum).

Annars er fjórða breiðskífa hljómsveitarinnar Gjöll á lokastigi, breiðskífa frá Forgarði Helvítis í hægu vinnsluferli og upptökur frá drulluga noisepönk-bandinu Ravachol í lokavinnslu og útgáfuundirbúningi. Bókasafn Anarkista komið á öruggt heimili í Reykjavíkurakademíunni og ég að plotta hvaða anarkistabækur ég eigi að þýða næst til útgáfu á klakanum.

Hvernig er fyrsta bíóminningin þín?
Ben Húr held ég. Fór með afa og foreldrum mínum ásamt Eiríki frænda. Við frændurnir vorum eitthvað innan við tólf ára. Það var ekið úr sveitinni og myndin var sýnd í Gamla bíó minnir mig (þar sem ég sat á Sólstafa-tónleikum um daginn sællar minningar). Þetta er massív stórmynd sem eldist vel og ég man enn eftir burtreiðunum þar sem Charlton Heston var nærri drepinn með svikum.

Ef þú mættir sjónvarpa kvikmynd til allra jarðarbúa, hvaða mynd myndirðu velja og af hverju?
Einhver af þeim sterku heimildamyndum sem til eru um lífsstílsmöguleika sem ekki er bráðdrepandi fyrir allar aðrar lífverur á plánetunni. En hún ætti þá einungis erindi til þess litla hluta mannkyns sem sóar megninu af öllu því sem aðra vantar.

Hefurðu farið einn í bíó?
Jájá. Gerði það bara nokkuð oft sem einhleypur maður. Hef oft haft orð á því að fátt sé leiðinlegra en að koma út af einhverri sterkri mynd, enn í trans og einhver kjaftaskur fer að blaðra og útskýra fyrir manni myndina. Fátt er meira eyðileggjandi fyrir bíóupplifun, nema ef vera skyldi kók-auglýsingar. Man enn þegar ég fór á DEAD MAN eftir Jim Jarmusch í Háskólabíó. Ég hálfþunnur og úti var nepja og myrkur og ég kom út hugsandi „til hvers er maður eiginlega að lifa!“ Svo sterk var hún þá.

Hvaða mynd er jafngóð eða betri en bókin sem hún er byggð á?
Mögulega „The Road“ eftir sögu Cormac McCarthy. Við hjónin erum unnendur post-apocalypse kvikmynda (auk Zombie mynda) og „The Road“ skar okkur í sálina. Það var gott. Seinna las ég bókina og einnig „No Country For Old Men“ einnig eftir hann. Þar má segja það sama um mynd og bók. Mögulega er það knappur ritstíll McCarthy sem gerir það að verkum að auðveld er að draga sögurnar upp á hvíta tjaldið án þess að fara að ofskreyta.

Hver er besta myndin sem þú sást í fyrra og af hverju?
Það veit ég ekki. Þetta er eins og með uppáhaldshljómsveitir þegar tónlistaráhuginn liggur í nokkrum geirum , smekkurinn víkkar stöðugt og nokkur hundruð hljómsveitir heilla mann á hverju ári. Ég get ekki alhæft hver sé uppáhaldshljómsveitin mín. Bara ómögulega. Á RIFF höfum við hjónin yfirleitt tekið allt að 40 myndir á tíu dögum og aðeins gengið út af einni. Heimildamyndir tala mikið til okkar (mér endist ekki ævin í að lesa bækur um allt sem ég vil vita) og ein sterk var „Fat, Sick and Nearly Dead“ um tvo unga karlmenn sem eru að kafna úr fitu og drepast úr sjálfs-ofnæmissjúkdómum en bjarga sér með því að fara á grænmetissafakúra. Bara venjulegir kallar, enginn neo-hippismi eða alhæfingar um hinn endanlega sannleika í mataræðisbreytingum sem guðsgjöf. Mjög mannleg mynd sem snart mig.

Áttu þér uppáhalds íslenska mynd?
Það má vel vera en ég man þá ekki eftir því. Nema auðvitað „Rokk í Reykjavík“. Var einmitt að hugsa með mér um daginn hvort að Friðriki Þór lumaði ekki á öllu aukaefninu úr henni einhversstaðar. Man eftir að ég las viðtal við hann um myndina á sínum tíma og þá kom fram að miklu fleiri hljómsveitir voru filmaðar en síðan enduðu í myndinni. Þetta er auðvitað sögulegt efni í dag og á erindi við okkur tónlistarnörda.

Áttu þér uppáhaldsleikstjóra?
Það væru þá nokkrir sem ég er til í að nefna: Gus Van Sant sem gerði „My Own Private Idaho“, „Elephant“ og margar fleiri hægar og afar mannlegar myndir um unga menn (og ungt fólk) á tímamótum í tilverunni. Todd Solondoz, þó ekki væri nema fyrir „Happiness“ sem ég sá á kvikmynda-hátíð á sínum tíma. Hann skapar undarlega karaktera sem funkera engan veginn í tilverunni. Hinn Gríski Yorgos Lanthimos sem gerði bæði „Dogtooth“ og „Alps“ sem sprengdu báðar upp marga mælikvarða á siðferðilega rétta hegðun í vestrænu samfélagi.

Hvaða leikara, íslenskan eða erlendan, gætir þú þolað að túlkaði þig í ævisögulegri mynd um Sigurð pönkhjúkku?
Þar sem ég sé sjálfan mig ekki fyrir mér get ég ekki ímyndað mér þetta. Ég bókstaflega er ekkert alltaf viss um hvernig ég lít út þegar ég sé ímyndir af sjálfum mér, nema þegar ég sé glitta í stóra bróður minn eða föður í spegilmyndinni. Ég hef heldur ekki unnið mér inn fyrir kvikmynd um sjálfan mig.

Ég þakka Sigurði kærlega fyrir spjallið og óska honum (og frú) velfarnaðar á flakki sínu um heiminn.

Auglýsingar

Gestahænsnið: Sigurjón Friðrik Garðarsson

Posted in Gestahænsni, Viðtöl on 17.2.2012 by snobbhaensn

Sigurjón Friðrik Garðarsson er 35 ára Álftnesingur og brellusveinn hjá tæknibrellufyritækinu Image Engine, sem rekur starfsemi sína í Vancouver, Kanada. Snobbhænsnið tók Sigurjón tali og spurði hann bæði út í djobbið hans, og bíó almennt.

Í hverju felst starf þitt?
Á enskunni er ég kallaður compositor en það er víst ekki til neitt nógu gott orð yfir þetta á íslensku. Sennilegast væri réttast að kalla það sem ég geri samsetningu eða eitthvað þess háttar því það sem ég geri er í rauninni að setja saman mismunandi hreyfimyndir og láta það líta út fyrir að vera tekið á sömu myndavél á sama tíma á sömu filmuna. Þannig að ég set inn tölvuteiknaða hluti, tek út græna eða bláa litinn í bluescreen eða greenscreen tökum og set eitthvað viðeigandi í staðinn. Það sem ég geri er líka lokahlekkurinn í tæknibrelluferlinu, þannig að það sem ég geri er lokaútkoman og það sem þú sérð í bíóhúsinu.

Hvaða verkefnum ertu að vinna í þessa dagana?
Það var nú bara að byrja mynd um síðustu helgi sem ég vann við fyrir jól og heitir Safe House. Annars er ég nýbyrjaður á mynd sem heitir Baja Dunes (var kölluð Elysium fyrir nokkru) og hún er eftir Neill Blomkamp sem gerði garðinn frægan með District 9.

Hvaða verkefni/mynd ertu stoltastur af?
Ég er stoltastur af Tron Legacy. Þó hún hafi kannski ekki verið upp á marga fiska sögulega séð, þá var hún sjónræn orgía og tæknilega erfið viðureignar. Ég held að flestir séu sammála um að hún hafi litið þrælvel út.

Hvaða mynd/myndir kveikti tæknibrelluáhugann?
Það voru tvær myndir sem komu með stuttu millibili og létu mig draga kjálkann á mér eftir gólfinu út úr bíóhúsinu eftir það sem ég sá. Fyrri myndin var Terminator 2, Judgement Day þar sem fljótandamálms-maðurinn labbaði í gegn um stálrimla, breytti sér í hvern sem var og kúkaði sjálfum sér ofan í lyftuna og inn í þyrluna, og það var allt mjög sannfærandi á skjánum. Seinni myndin var Jurassic Park þar sem risaeðlur hlupu um og átu lögmenn og geitur. Ég bara varð að komast að því hvernig þetta hafði verið gert og ákvað svo í framhaldinu að þetta væri eitthvað sem ég vildi gera.

Hver var síðasta mynd sem þú sást?
Ég sá Contraband fyrir nokkrum vikum síðan og fannst hún alveg ágæt. Verð reyndar að viðurkenna að ég hef ekki séð Reykjavík-Rotterdam ennþá. Verð að biðja einhvern heima um að senda mér hana því mig langar að sjá hana.

Ferðu í bíó eða horfirðu á myndir heima?
Bæði, þó ég reyni að sjá sem flest í bíói. Það eru þá helst til rómantísku gamanmyndirnar og þess háttar léttmeti sem ég horfi frekar á heima með konunni. Annars finnst mér bíóstemningin ómissandi og ég fæ alveg fráhvarfseinkenni ef það líður of langt á milli bíóferða.

Hvaða mynd hefurðu séð oftast af öllum?
Þær eru tvær. Annars vegar Terminator 2 og hins vegar Spaceballs. Ég kann báðar utanað og get sennilega farið með þær aftur á bak líka. Ég reyni að horfa á þessar allavega einu sinni á ári.

Hvaða mynd hafa allt of fáir séð, en allir ættu að sjá að þínu mati?
Ég var mjög hrifinn af Moon sem Duncan Jones leikstýrði 2009. Sam Rockwell fer alveg á kostum í myndinni þar sem hann leikur á móti sjálfum sér, og ekki skemmir að Duncan Jones er sonur David Bowie.

Hvaða fimm myndir eru í mestu uppáhaldi hjá þér?
Terminator 2, Spaceballs, The Empire Strikes Back, Aliens, og Inception. Úff, ætli það sé tilviljun að þetta séu allt brelluþungar myndir?

Ég þakka Sigurjóni kærlega fyrir spjallið og sendi stuðkveðjur til Kanada. Hér má svo sjá seinasta showreel-ið hans.

Gestahænsnið: Flosi Þorgeirsson

Posted in Gestahænsni, Viðtöl on 9.2.2012 by snobbhaensn

Gestahænsnið í þetta sinn er Flosi Þorgeirsson, gítarleikari drungarokksveitarinnar HAM. Flosi er ávallt iðinn við bíó-kolann og lá það því beinast við að Snobbhænsnið tæki hann tali.

Hvað er framundan hjá þér í lífinu?
Mig grunar að HAM verði eitthvað að vesenast bráðlega. Einnig ætlum við félagarnir í hljómsveitinni Dætrasynir að skella okkur í studio og taka upp plötu sem vonandi kemur út seinna á árinu. Annars vona ég að ég geti sem mest hangið bara heima og lesið bækur, hlustað á tónlist og horft á myndir og sjónvarpsþætti enda finnst mér það langskemmtilegast. Er reyndar að fara í nokkurra vikna ferð til Bandaríkjanna í vor. Læt gamlan draum um að skoða suðurríkin rætast.

Hvaða nýju eða nýlegu mynd mælirðu með?
Þessari spurningu hefði verið auðveldara að svara fyrir 20 árum síðan. Kvikmyndin sem slík á í kreppu. Þetta virðast vera endalaus re-make og endurtekningar. Á sama tíma er sjónvarpið búið að ná yfirhöndinni. Nú heyrir maður fólk yfirleitt ræða hina og þessa þætti frekar en kvikmyndir. En til að svara spurningunni þá held ég að ég nefni Drive. Mér fannst hún góð í alla staði, kannski handritið sjálft hafi verið veikasti punkturinn. Ekki mikið sem kom á óvart í þeirri ræmu en leikur er góður og músíkin stórfengleg. Ég er einnig ofurhetjunörd og fannst X-men: First Class skemmtileg. Myndin um Tinna var líka frábær.

Uppáhaldsmynd í öllum heiminum?
The Third Man. Hún er mín uppáhalds vegna þess að hún er jú frábær og auk þess er þetta mynd sem ég sá þegar ég var krakki og hún stimplaði sig því sterkt inn. Ég dýrka þessa mynd. Er ég kom í fyrsta sinn til Vínar var það mitt fyrsta verk að bóka mig í “The Third Man” göngu um borgina sem var stórkostleg upplifun. Gauksklukkuræða Welles er eitt eftirminnilegasta atriði kvikmyndasögunnar.

Fyrsta kvikmynd sem þú manst eftir að hafa séð í kvikmyndahúsi?
Hm, einhver mynd sem ég sá í Kópavogsbíói sáluga og fjallaði um einhvern gaur sem hét Lobo eða eitthvað slíkt. Meira man ég ekki enda hefur þetta verið í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar. Það er dálítið síðan sko… Ég man að mér fannst þetta samt allt voða spennandi. Ég fór fyrst einn í bíó er ég var ca. 10 ára (Laugarásbíó, myndin hét Jóreykur og skartaði Jack Nicholson í aðalhlutverki) og gerði það reglulega. Hinum krökkunum fannst ég klikk að fara einn í bíó. Það var eitthvað sem krakkar bara gerðu ekki en ég hef alltaf notið þess best.

Áttu þér uppáhalds leikstjóra?
Ég hugsa að ég verði bara að nefna Sergio Leone vegna Dollaramyndanna + Once Upon a Time in the West. Þessar myndir höfðu gífurleg áhrif á mig og gera enn. Einnig reyni ég aldrei að missa af neinni mynd Coen bræðra enda eru þeir og hafa verið lengi áhugaverðustu kvikmyndagerðarmenn samtímans.

Þú ert mikill músíkunnandi. Hljóðspor hvaða kvikmynda eru í mestu uppáhaldi?
Aftur koma vestrar Leone upp í hugann og stórkostleg tónlist Ennio Morricone. Ekki má sleppa að minnast á Bernard Herrmann og John Williams. Af því að ég var að minnast á Drive áðan þá verð ég að henda Cliff Martinez hérna inn.

Nú ert þú annálaður aðdáandi stríðsmynda og mikill áhugamaður um hinar ýmsu styrjaldir. Hvaða erjur mannkynssögunnar hafa orðið mest útundan í kvikmyndasögunni og þú værir til í að sjá meira bíó um?
Borgarastyrjöldin á Íslandi sem í daglegu tali er kölluð Sturlungaöld. Algert möst og að minnsta kosti 50.000.000$ budget er nauðsynlegt. Íslendingar mega leika í þessarri mynd og elda mat handa tökuliðinu en annars ekki koma nálægt þessu! Of hræddur um að það yrði kjánahrollur dauðans. Einnig væri ég til í að sjá mynd um þá fífldjörfu menn sem hönnuðu og notuðu fyrstu kafbátana sem voru notaðir í hernaði en það var í bandarísku borgarastyrjöldinni.

Hverjar eru 5 bestu stríðsmyndir allra tíma að þínu mati?
All Quiet on the Western Front (1930) – Idi I smotri (Komið og sjáið) – The Longest DayApocalypse NowDas Boot

Ég þakka Flosa kærlega fyrir skemmtilegt spjall og vil nota tækifærið og hvetja alla til að fræðast um myndirnar sem gestahænsnin nefna hér. Það eru meira að segja hlekkir á margar þeirra. Dómgreind þeirra er góð, ég ábyrgist það.

Gestahænsnið: Dr. Gunni

Posted in Gestahænsni, Viðtöl on 30.1.2012 by snobbhaensn

Gestahænsni vikunnar er enginn annar en pönkarinn og poppfræðingurinn Dr. Gunni. Hann er ekki bara poppfróður, heldur einnig mikill áhugamaður um kvikmyndir og bloggar meira að segja stundum um þær. Ég veit þó lítið um smekk hans á kvikmyndum (nema að honum fannst Avatar rusl) og ákvað því að demba á hann nokkrum hænsnisspurningum, en gleymdi að vísu að spyrja hann hvort hann hefði farið aleinn í bíó.

[Gunnar gerði athugasemd við þetta og svo virðist sem sjálfu Snobbhænsninu sé að misminna. Gunnar kann vel að meta Avatar en finnst Kóngavegur hins vegar vera rusl.]

Hvað ertu að brasa og hvað er framundan?
Ég er að klára poppsöguhlúnk einn gríðarlegan sem á að koma út í haust. Vinnuheitið á bókinni er Stuð og menn, saga íslenskrar dægurtónlistar. Svo langar mig að gera barnaplötu með Heiðu á næstu misserum, Popppunktur verður líklega eitthvað á sveimi, en svo er það bara eitthvað sjitt til að borga reikningana. Veistu um eitthvað?

Hvaða mynd sástu síðast?
Ég fór á The Artist, mjög góð og skemmtileg feel-good mynd. Maður er alltaf aðeins á varðbergi þegar myndir hafa fengið jafn sláandi einróma lof, en þessi á það alveg skilið. Myndin byggir á frásagnastíl mynda frá þessum s/h-tímum en víkkar formið heldur betur út. Ég hef verið að spá í þessu tímabili, hef verið að skrifa um það í poppbókinni og svo tók ég törn í Chaplin og horfði á helstu myndirnar hans með krökkunum mínum. Eintóm meistaraverk þar á ferð, frá The Kid 1921 til Modern Times 1936. Ég var því mjög „andlega“ undirbúinn fyrir „heim“ The Artist og fílaði hann mjög vel. Gríðalegra flott og fín mynd.

Hver er fyrsta bíóminningin þín?
Ég man lítið af þessu ljóslifandi en ætli ég hafi ekki oft farið í 3-bíó þar sem safnað var saman gömlum teiknimyndum, annað hvort frá Disney eða eitthvað annað. Ég man eiginlega meira eftir poppinu í Kópavogsbíói, en það var af tegundinni Lollipopp. Ég fór svo á fyrstu Star Wars myndina í Nýja bíói 1978 með mömmu og pabba, næst fór ég með þeim á Titanic og svo á einhverja af þessum Stig Larson myndum. Ég man líka eftir því sem barn að hafa séð Maðurinn sem minnkaði, The Incredible Shrinking Man, í sjónvarpinu. Ég hef örugglega fengið martraðir af henni!

Áttu þér uppáhalds kvikmyndaleikstjóra?
Lengi framan af voru það þeir David Lynch og John Waters. Lítið komið frá þeim af viti nýlega þó. Ég hef tekið Hitchcock tarnir og Luis Bunuel er frábær. Alexander Payne er snillingur (á eftir að sjá nýju myndina hans en hlakka mikið til) og Todd Solondz lofaði góðu með Happiness, sem er geðveik, en stóð því miður ekki undir því. Coen-bræður eru hinsvegar alltaf mjög góðir og alltaf treystandi til góðra mynda.

Hvaða mynd hefur hrætt þig mest?
Það er örugglega fyrsta Friday the 13th sem ég sá í þynnku 14-15 ára. Ég var svo skelkaður að ég þurfti að skríða upp í á milli foreldra minna (ekki segja neinum). Ég tók tímabil þegar ég lagði mig fram við að sjá ógeðslegar myndir. Man að ég pantaði einhverjar bootleggútgáfur á VHS af einhverjum gaur frá Svíþjóð. Bókin frá Re/Search Incredible Strange Films hafði mikil áhrif og maður vildi sjá allar myndirnar sem voru í henni. Þetta var á Bless og Ham tímabilinu, 1987 eða svo, og allir sem maður þekkti höfðu áhuga á því sem var sikk og ógeðslegt. Það var nánast keppni í því hver gæti horft á meira sikk drasl.

Ég er löngu vaxinn upp úr þessu og sæki frekar í feel-good en feel-bad myndir. Hef lítið þol fyrir ógeði lengur, þurfti t.d. að loka augunum þegar hausinn var laminn í sundur með slökkvitæki í myndinni Irréversible, sem er svona það ógeðslegasta sem ég hef séð í seinni tíð. Mér finnst bara mjög óþægilegt að bregða!

Hvaða mynd ættu allir að sjá sem fáir hafa séð?
Tja, hafa ekki allir séð allt? En ok… Tékkið á Play Time eftir franska grínistann Jacques Tati frá 1967. Frábærlega „nútímaleg“ mynd, hæg og seiðandi, bara um gamlan karl að flækjast um á flugvelli og eitthvað og setti Tati á hausinn. The Trouble with Harry er lúmsk snilld eftir Hitchcock, hálfgerð grínmynd um fólk að væflast um með lík. Le Fantôme de la liberté eftir Luis Bunuel er súrrealísk snilld. Tékkaðu á „manninum sem brosti aldrei“, Buster Keaton, ef þú vilt eitthvað ævagamalt og fyndið. T.d. myndirnar hans Go West eða Steamboat Bill Jr. Og teiknimyndir eftir Tex Avery. Ég tók alveg kast á þeim einu sinni.

Leiðinlegasta mynd sem þú hefur séð?
Ég hætti nú auðvitað oftast að horfa áður en ég klára alveg gjörsamlega ömurlegar myndir. Ég man eftir einni sem ég gafst mjög fljótlega upp á, Joe Dirt með David Spade. Ég skil ekki afhverju einhver hélt að David Spade gæti eitthvað án Chris Farley. Það voru úrvals fávitamyndir sem þeir léku saman í. Ég og Pétur Magnússon vinur minn reynum að fara stundum á fávitamyndir í bíó. Fátt betra en góð fávitamynd, ef hún er fyndin!

Ég þakka Gunnari kærlega fyrir spjallið og ykkur fyrir lesturinn. Yfir og út.

Gestahænsnið: Elísabet Ronaldsdóttir

Posted in Gestahænsni, Viðtöl on 23.1.2012 by snobbhaensn

Elísabet Ronaldsdóttir er gestahænsni vikunnar, en hún hefur starfað sem klippari í fjöldamörg ár. Meðal mynda sem hún hefur klippt eru Mýrin, Blóðbönd og teiknimyndin Legends of Valhalla: Thor, að ógleymdri nýjustu myndar Baltasars Kormáks, Contraband, sem er búin að hala inn 46 milljónir dala í bandarískum bíóhúsum þegar þetta er skrifað.

Hver er uppáhaldsmyndin þín í öllum heiminum?
Blade Runner frá 1982 af því ég man enn hvernig mér leið þegar ég kom út af henni.

Hver er elsta bíóminningin þín?
Dr. Goldfoot and the Bikini Machine frá 1965. Ég sá hana ca. 10 árum eftir að hún var framleidd í Hafnarbíó sem var hýst í bragga á horni Barónsstígs og Skúlagötu. Hafði fengið miða sem launauppbót fyrir að bera út Vísi. Þrátt fyrir verulegan athyglisbrest gleymi ég titli myndarinnar aldrei.

Hvaða kvikmynd ertu ánægðust með að hafa komið að?
Það er eins og að spyrja hvað sé uppáhalds barnið mitt. Mér þykir jafn vænt um öll mín börn og allar þær kvikmyndir sem ég hef unnið. En svona eins og frumburður þá er fyrsta kvikmyndin sem ég klippti og fékk kredit fyrir „Bye, Bye Bluebird“ varða í lífi mínu. Hún var framleidd í Danmörku 1999 í leikstjórn Katrínar Óttarsdóttur.

Kanntu að klippa kvikmynd með límbandi og skærum?
Já og hef gert. Þannig byrjaði kvikmyndaklippiferill minn á danskri barnamynd 1997. Sat íklædd hvítum hönskum og klippti og límdi filmuna saman. Þúsundir metrar af filmu héngu á krókum og lágu ofan í taupoka. Ég man vel eftir því þegar Steenbeckarnir og splæserarnir voru bornir útúr klippiskúrunum hjá Nordisk Film og tölvurnar bornar inn í staðinn. Ég fylgdist með því yfir kaffi og sígó í sumarsólinni. Sussum svei maður hefur lifað tímana tvenna.

Hefur orðið aukning í spennandi tilboðum hjá þér eftir Contraband?
Ég hef unnið sleitulaust í kvíkmyndum í meira en 20 ár og það væri asskoti kaldhæðið ef tilboðunum fækkaði í kjölfar vinsælda Contraband. Auðvitað lætur maður sig dreyma um vel borguð stórverkefni. Sjáum hvað setur.

Hverjar telur þú ástæður þess að það koma hlutfallslega fleiri konur að öllum öðrum hlutverkum kvikmyndagerðarinnar en leikstjórn?
Það eru margar ástæður fyrir því og sumar flóknar. Það er allavega ekki útaf því að karlmenn hafi almennt betri hæfileika til leikstjórnar. Mýmörg dæmi sanna það.

Hver er besti starfandi klippari í heiminum í dag að þínu mati?
Þeir eru margir góðir klippararnir. Valdís Óskarsdóttir er ein og Dodi Dorn önnur og svo er ég svag fyrir Christopher Rouse.
En enginn kemst með tærnar þar sem Dede Allen var með hælana. Ég vil verða eins og hún, og enn að vinna á fullu eftir áttrætt, eins og reyndar Anne V. Coates sem er annar massa flottur klippari. Algjörir töffarar.

Manstu eftir einhverri klassískri og mikils metinni kvikmynd í kvikmyndasögunni sem er að þínu mati illa klippt?
Allar kvikmyndir eru börn síns tíma. Það er ekki bara tæknin sem hefur breyst og hæfileiki kvikmyndagerðamanna til að vinna með formið heldur hefur hæfileiki áhorfenda til að lesa myndmálið gert það líka. Ef þú færir aftur í tímann og sýndir Contraband unglingum árið 1920 myndi enginn skilja hvað sagan gengur útá.

Eins getum við horft á gamlar myndir og séð á þeim galla og þær elstu eru ekki einu sinni klipptar heldur bara ein taka. En engin kvikmynd er mikils metin í kvikmyndasögunni nema standa undir því og myndar þannig grunn að því sem er að gerast í kvikmyndagerð í dag.

Hvaða fimm kvikmyndir hveturðu fólk til þess að horfa á með tilliti til góðrar klippingar?
Slaughterhouse-Five (1972)
Out of Sight (1998)
Memento (2000)
The Bourne Ultimatum (2007)
Þessar fjórar af ýmsum ástæðum góðum, og af því að maður lærir nú stundum mest með því að horfa á illa klipptar kvikmyndir, þá Swordfish (2001)

Ég þakka Elísabetu kærlega fyrir og vil hvetja alla til þess að sjá hina glæsilegu Contraband. Er hallærislegt ef ég segi Áfram Ísland?

Gestahænsnið: Bóas Hallgrímsson

Posted in Gestahænsni, Viðtöl on 16.1.2012 by snobbhaensn

Söngfuglinn Bóas Hallgrímsson úr hljómsveitinni Reykjavík! er gestahænsni vikunnar. Þessi geðþekki grunnskólakennari er sérlegur áhugamaður um hrollvekjur og fannst mér því tilvalið að demba á hann spurningum úr heimi hryllings og ótta. Hann var eitthvað efins með þessa spaugilegu ljósmynd sem ég lagði hart að honum að leyfa mér að nota. En hann bauð mér ekkert betra í staðinn þannig að hundaflipp verður það.

Snobbhænsnið: Hvað ertu að brasa?
Bóas: Ég er að fást við ýmislegt þessa dagana. Hljómsveitin Reykjavík! sem ég tilheyri er alltaf að gera eitthvað rugl, semja dansverk og tónverk og smíða grindverk. Svo er ég alltaf að kenna, ala upp börn, skrifa skáldsögu og horfa á bíó.

Hvaða nýju eða nýlegu hrollvekju mælirðu með?
Ég er búinn að vera fáranlega latur við að horfa á bíómyndir að undanförnu og ég ætla klárlega að bæta úr því á þessu ágæta ári. Það sem ég hef séð nýlega er flest drasl. En ef ég ætti að týna til myndir sem ekki eru drasl þá eru það helst Troll Hunter sem mér þótti alveg stórkostleg, það er alveg ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með því sem Norðurlöndin eru að senda frá sér í bíó, ég vildi að ég væri duglegri að sjá allar þær frábæru myndir sem eru að koma frá þeim slóðum. En Troll Hunter og Låt den rätte komma in eru alveg með því ferskara sem ég hef séð undanfarin ár.

Svo þótti mér I Saw the Devil alveg ótrúlega sterk, hún tekur fjöldamorðingjamyndir á nýjar hæðir. Jee Woon Kim hefur gert einstaklega grípandi og spennandi mynd. Mér hefur þótt hann spennandi frá því að ég sá A Tale of Two Sisters, en þessi mynd, I Saw the Devil, er margfalt betri. Margfalt. Svo fannst mér Last Exorcism ógeðslega hress.

Hver var fyrsta myndin sem hræddi úr þér líftóruna?
Ég stalst til þess, eins og svo margir minnar kynslóðar, að horfa á Jaws. Það hefði ég betur látið ógert. Ég held að ég hafi verið sex eða sjö ára. Ég var ekki fáanlegur til þess að baða mig, sundferðir fylltu mig kvíða og hryllingi. Ég get enn ekki farið á ströndina án þess að fá kvíðahnút í magann. Eftir að pabbi fór svo með mig á Gremlins þá svaf ég vopnaður vasaljósi svo vikum skipti.

Uppáhalds hryllingsmynd í öllum heiminum?
The Shining og Rosemary’s Baby. Í báðum tilfellum er það vegna þess að þessar myndir hræddu úr mér líftóruna. Það er svo einstök tilfinning að vera límdur við að horfa á eitthvað sem vekur hjá manni óhug og veldur vanlíðan og vellíðan samtímis. Þegar ég horfði á The Shining þá var ég einn heima, tólf ára að vetrarlagi. Ég átti heima í Mosfellsdalnum og það var óvenju snjóþungt þetta tiltekna kvöld. Mamma og pabbi höfðu brugðið sér eitthvað af bæ og ég var með videokvöld, eins manns videokvöld þar sem engin var til í að vaða skaflana til þess að horfa á einhverja hryllingsmynd með mér.

Ég kom mér því einn fyrir í leðursófanum með teppi breytt yfir mig, örbylgjupopp í skál og líter af appelsínusafa og ræsti myndina. Tæpum þreumur tímum síðar komu foreldrar mínir heim. Ég hafði ekki snert á poppkorninu, ekki tekið einn sopa af appelsínusafanum og hafði ekki fyrir mitt litla líf treyst mér til þess að teygja mig í fjarstýringuna til þess að stoppa myndina. Á skjánum var snjónvarpssnjór og ég var stjarfur af skelfingu. Romemary’s Baby hafði svipuð áhrif á mig.

Hver er ofmetnasta hryllingsmyndin?
Það er svo erfitt að tala um ofmetna hryllingsmynd held ég. Það er ekki eins og þessi flokkur kvikmyndanna sé á háum stalli hjá snobbhænsnum úr heimi kvikmyndanna, meira að segja meistarastykki úr flokki hryllingsmynda eiga upp á pallborðið hjá takmörkuðum hópi kvikmyndaunnenda. Og það er gott og vel. En umtalaðar hryllingsmyndir sem eiga umtalið kannski ekki skilið, það er önnur ella. Þar þykir mér Tom Six, Íslandsvinurinn, grunsamlegur. Þegar menn gera kvikmyndir sem ganga eins langt og mögulegt hægt er, aðeins til þess að hneyksla þá er það ekki minn tebolli. Því myndi ég segja að The Human Centipede og Hostel eftir Eli Roth væru of-umtalaðar.

Er einhver hryllingsmynd sem gengur að þínu mati of langt í ofbeldi og viðbjóði?
Vissulega, fullt af þeim. Ég veit ekki hversu oft ég hef setið í sófanum heima hjá mér og velt því fyrir mér hvernig mér dettur í hug að horfa á eitthvað viðbjóðsklám. Þegar ég segi viðbjóðsklám þá vona ég að fólk átti sig á því að ég á við myndir sem ganga svo langt í ofbeldi og viðbjóði að það er varla hægt að kalla það annað en klám. Ég nefni sem dæmi ógeðið Serbian Film sem ég gat með engu móti fengið mig til þess að horfa á. Eins má alveg segja að Hostel, Frontiers, Human Centipede, High Tension hafi fátt annað fram að færa en ógeð.

Trúir þú á yfirnáttúru (drauga, andsetningar, einhverskonar ófreskjur eða önnur yfirnáttúruleg fyrirbæri)?
Já, ég geri það. Ég held að það sé ormur í Lagarfljóti, Nykur í Reykjavíkurtjörn og illir andar á Alþingi.

Fimm bestu hrollvekjur allra tíma?
Rosemary’s Baby, The Shining, Evil Dead.

Þarna bræddi heili Bóasar úr sér, enda einkar erfið lokaspurning. Við þökkum honum kærlega fyrir og ég hvet alla sem vettlingi geta valdið til að hlusta á nýjustu plötu hljómsveitarinnar Reykjavík!

Gestahænsnið: Baldur Ragnarsson

Posted in Gestahænsni, Viðtöl on 10.1.2012 by snobbhaensn


Það er kominn tími á annað gestahænsni. Að þessu sinni henti ég nokkrum spurningum í Baldur nokkurn Ragnarsson, en hann horfir ofsalega mikið á bíó.

Baldur er ofvirkur tónlistarmaður og hefur undanfarin misseri gert góða hluti með hljómsveitunum Innvortis, Skálmöld og Ljótu hálfvitunum. Hann hefur spriklað um land allt með Leikhópnum Lottu á sumrin, en hefur tekið því nokkuð rólega undanfarið í snjóþyngslunum. Sjáum hvort Baldur segi ekki eitthvað af viti.

Snobbhænsnið: Hvað ertu að gera og hvað er framundan?
Baldur: Framundan er að taka upp plötu með tríói sem ég er partur af sem heitir Dætrasynir, klára að semja og taka upp nýja plötu með Skálmöld, Ljótu hálfvitarnir eru að koma saman aftur með tilheyrandi tónleikahaldi og gleði og svo leikhúsvinna í ýmsu formi. Ásamt því auðvitað að reyna að halda sómasamlegt heimili.

Seinasta mynd sem þú horfðir á?
Hún heitir RoboGeisha og er japönsk. Ég er nýkominn frá Japan og fannst við hæfi að loka ferðinni með því að horfa á þessa. Hún er fullkomlega glórulaus og glæsileg, til dæmis blæðir húsunum kröftuglega þegar stóra húsavélmennið lemur þau. Brellurnar eru passlega illa gerðar og húmorinn mjög japanskur. Þeir sem hafa gaman af mátulega lélegum óútskýranlegum myndum ættu að sjá þessa. (trailer)

Uppáhaldsmynd í öllum heiminum?
Ég verð að feta í fótspor fyrri hænu og segja The Big Lebowski. Ég hef séð hana ótal sinnum, ég er enn að hlæja að sömu bröndurunum, enn að finna nýja og ég þreytist aldrei á því að horfa á einhvern horfa á þessa mynd í fyrsta skipti.

Fyrsta kvikmynd sem þú manst eftir að hafa séð í kvikmyndahúsi?
Ég held hreinlega að mín fyrsta hreina kvikmyndaminning sé þegar ég fer og sé Jurassic Park, þá nýútkomna í samkomuhúsinu á Húsavík með pabba. Hún var bönnuð yngri en 12 og ég var bara 9, við smygluðum mér inn. Pabbi talaði oft um það að það hefði enginn nokkurn tímann kreist höndina hans eins fast og ég þegar helvítis snareðlurnar mættu.

Áttu þér uppáhalds leikstjóra?
Nei ég á engan uppáhalds leikstjóra sem ber höfuð og herðar yfir aðra. Ég á hinsvegar marga leikstjóra í uppáhaldi. Til að nefna einhvern get ég nefnt Jean-Pierre Jeunet. Amelie og Delicatessen, sem hann leikstýrði reyndar með Marc Caro, eru myndir sem hafa fylgt mér lengi og gera mig reglulega glaðan.

Mynd sem alltof fáir hafa séð, en allir ættu að sjá?
Júgóslavneska myndin Underground í leikstjórn Emir Kusturica frá árinu 1995. Tónlistin er í höndum Goran Bregovic og er algjörlega stórbrotin. Þetta er ein af mínum uppáhaldsmyndum sem fæstir virðast því miður þekkja. Ég ætla ekki að segja neitt um söguþráðinn, sjáið hana bara. Hún er vel þess virði.

Nú áttu veglegt kvikmyndasafn. Hver er versti gripur safnsins?
Það er sennilega myndin Valhalla Rising. Þetta voru svo mikil vonbrigði. Ég sá trailerinn, hann var ágætur. Ég er hrifinn af Mads og hann klikkar sjaldan þannig að ég keypti þessa mynd á dvd-i í blindni. Svo fer hún meira að segja ágætlega af stað, ég er fullkomlega til í þessa rennireið en þá umturnast myndin snögglega yfir í mannaskít mannkyns. Ég hef aldrei verið eins illa svikinn af líflausum hlut og núna geymi ég þennan dvd-disk í sjónmáli til að minna mig á að byrja ekki að treysta of snemma í lífinu.

Hvort er betra: Strákakvöld yfir Rambo, eða kúr með sætri stelpu yfir rómantískri gamanmynd?
Þetta er erfið spurning. Þetta er líka spurning um tilgang og eftirmála. Ef spurningin snýr eingöngu að kvikmyndaáhorfinu hefur Rambó vinninginn. Maður veit jú að Rambó klikkar ekki en hvað ef rómantíska gamanmyndin er ein af þessum örfáu góðu en ekki enn ein ruslræman? Og maður verður líka að horfast í augu við það að kúr undir rómantískri gamanmynd með sætri stelpu er oft brú yfir í eitthvað sem sjaldnast brýst fram eftir Rambó-kvöld með strákunum, nema að hópurinn sé þeim mun þéttari.

Ég kýs að svara þessu ekki, þetta er svolítið eins og að spyrja: „Hvor er betri, Stephen Hawking eða Michael Johnson?“

Snobbhænsnið þakkar Baldri fyrir góð svör og snögg viðbrögð. Hlustið á Skálmöld.