Keyrt til Krýsuvíkur

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 16.11.2012 by snobbhaensn

Berberian Sound Studio **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Peter Strickland
Leikarar: Toby Jones, Cosimo Fusco, Tonia Sotiropoulou, Susanna Cappellaro, Antonio Mancino

Þessi óvenjulega hrollvekja segir frá Gilderoy, miðaldra breskum hljóðmanni sem ferðast til Ítalíu til að hljóðsetja kvikmynd. Starfsmenn Berberian-hljóðversins eru stórfurðulegir og eigandinn sjálfur er sérstaklega óvinsamlegur. En Gilderoy er fagmaður og ákveður því að staldra við og klára verkið.

Það er nærri ómögulegt að segja nánar frá söguþræðinum, en mörk alvöru og ímyndunar verða óskýrari eftir því sem líða tekur á myndina. Er Gilderoy geðveikur eða er hann ef til vill staddur í helvíti? Toby Jones fer með hlutverk hans og heldur uppi mestum þunga myndarinnar á eigin spýtur. Frábær leikari sem ég hef aldrei fyrr séð í aðalhlutverki.

Sjónrænar og hljóðrænar tilvísanir í ítalskar hrollvekjur 8. áratugarins eru óteljandi og við fáum meira að segja að heyra í öldruðu giallo-drottningunni Suzy Kendall í nokkrum stuttum atriðum. Tónlistin er samin af ensku indie-sveitinni Broadcast og tekst henni að skapa magnaðan hljóðheim sem byggir að miklu leyti á gamalli kvikmynda-tónlist, en er þó miklu meira en bara eitthvað retró-hjakk.

Það er nær ómögulegt að afgreiða Berberian Sound Studio með stjörnugjöf. Hún fer með áhorfandann í ferðalag en keyrir svo til Krýsuvíkur og skilur hann eftir. Hún er sérhæfð, óræð og artí. En hún mun finna sinn markhóp. Ég er handviss um það.

Niðurstaða: Ein forvitnilegasta mynd ársins.

Birt í Fréttablaðinu 8.11.2012

Auglýsingar

Hetjur í hálfa öld

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 16.11.2012 by snobbhaensn

Purge **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Antti Jokinen
Leikarar: Laura Birn, Liisi Tandefelt, Amanda Pilke, Peter Franzén, Krista Kosonen, Tommi Korpela

Árið er 1992 í Eistlandi og hin aldraða Aliide skýtur skjólshúsi yfir unga stúlku á flótta undan miskunnarlausum mannræningjum. Hún kemst fljótlega að því að hún tengist stúlkunni fjölskylduböndum og sagan hoppar hálfa öld aftur í tímann, þar sem Eistland var hernumið af Sovétmönnum og andstæðingar kommúnismans voru pyntaðir og drepnir. Aliide hin unga girnist eiginmann systur sinnar en saman fela þær hann fyrir miskunnarlausum hersveitum Stalíns sem leita hans.

Myndin er byggð á samnefndri bók finnsku skáldkonunnar Sofi Oksanen sem gerði garðinn frægan hér á landi þegar hún hvæsti á íslenskan blaðamann í viðtali fyrir tveimur árum. Bókin hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og myndin hefur verið valin sem framlag Finna til Óskarsverðlaunanna í byrjun næsta árs.

Sagan hoppar fram og til baka í tíma og gerir það gríðarlega vel. Þegar líða tekur á myndina færist fókusinn nær alfarið á eldri söguna, enda mun meira púður í henni. Leikhópurinn stendur sig frábærlega og aðalleikkonurnar þrjár bera af. Mest mæðir á Lauru Birn, en persóna hennar tekur sífelldum breytingum eftir því sem ofbeldið og örvæntingin stigmagnast. Þessi frábæra leikkona veldur hlutverkinu vel og litlu síðri er Liisi Tandefelt, sú sem leikur hana á efri árum.

Eymdin og volæðið í Purge keyrir á köflum nánast um þverbak, en hetjuskapur sterkra kvenpersóna heldur áhorfandanum við efnið og verðlaunin að lokum eru eftirminnileg og skrambi vel heppnuð kvikmynd. Það er þó viðbúið að einhverjum ofbjóði skelfilegustu atriðin, sem þó taka meira á hugann en augun.

Niðurstaða: Ekki fyrir alla, en eftirminnileg og gríðarlega vel leikin.

Birt í Fréttablaðinu 1.11.2012

Órakaður og aleinn heima

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 26.10.2012 by snobbhaensn

Skyfall **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Sam Mendes
Leikarar: Daniel Craig, Javier Bardem, Judi Dench, Ralph Fiennes, Naomie Harris, Bérénice Marlohe, Ben Whishaw, Albert Finney, Ola Rapace

James Bond fagnar hálfrar aldar kvikmyndaafmæli sínu í þessum mánuði og því er gífurlegt húllumhæ í kringum frumsýningu 23. myndarinnar um þennan kvensama breska spæjara, jafnvel meira en vanalegt er. Skyfall nefnist myndin og er sú þriðja í röðinni þar sem hinn ljóshærði Daniel Craig skartar smókingnum. American Beauty-kempan Sam Mendes er við stjórnvölinn og er það í fyrsta sinn sem Óskars-verðlaunaleikstjóri spreytir sig á Bond.

Í Skyfall er M gamla rækilega búin að klúðra málunum og trúnaðarskjöl leyniþjónustunnar eru komin í hendur tölvuþrjóta. Í æsilegum eltingarleik við ódámana verður Bond fyrir skoti frá samherja og hrapar fram af brú. Það lifir hann af en lætur sig engu að síður hverfa um stundarsakir og er úrskurðaður látinn. Þegar höfuðstöðvar MI6 verða svo fyrir hryðjuverkaárás kemur kappinn loks úr felum og þá mega bófarnir fara að vara sig.

Það er farið um víðan völl í þessari tveggja og hálfrar klukkustunda löngu mynd. Við sjáum okkar mann bæði órakaðan og uppdópaðan, og síðar uppstrílaðan og einbeittan, og þrátt fyrir að yndislegu klisjurnar séu flestar til staðar fær áhorfandinn einnig dágóðan skerf af „öðruvísi“ Bond. Þá er lokauppgjörið frábrugðið því sem við eigum að venjast og minnir um margt á kvikmyndina Home Alone, en á góðan máta (og ekki eins hlægilegan).

Craig heldur áfram að blómstra í hlutverki sínu og glæsilegur aðal-skúrkurinn (Javier Bardem) er líklega sá mest ógnvekjandi sem ég man eftir í langan tíma. Tækjasjéníið Q er kynnt til sögunnar á ný og er það vel, en Bond-skvísurnar fá minna pláss en oft áður, þó það komi reyndar ekki að sök. Tónlistin olli mér samt nokkrum vonbrigðum og þá ekki síst titillagið, bragðdaufur og rislítill hiphop-fiðlukokteill í moll, sem söngkonan Adele flytur þó ágætlega. Þetta er sérstaklega spælandi í ljósi þess að undangengin upphafssena er ein sú æsilegasta í manna minnum.

Hvað um það. Sé allt tekið með er Skyfall ljómandi vel heppnuð og skotheld leikstjórn Sam Mendes og sáraeinfalt en margslungið handritið lyfta henni upp í úrvalsflokk.

Niðurstaða: Þrælspennandi og skemmtileg frá upphafi til enda. Ég bið ekki um mikið meira.

Birt í Fréttablaðinu 26.10.2012

Að duga eða drepast

Posted in Fréttablaðið, Gagnrýni on 26.10.2012 by snobbhaensn

Frankenweenie *** (3 stjörnur)
Leikstjórn: Tim Burton
Leikarar: Charlie Tahan, Winona Ryder, Catherine O’Hara, Martin Short, Martin Landau, Robert Capron, Frank Welker, Atticus Shaffer

Það er dugnaður í Tim Burton og aðeins hálfu ári eftir Dark Shadows færir hann okkur Frankenweenie, hrollvekjandi stop-motion fjölskyldumynd í svarthvítri þrívídd. Myndina byggir hann á samnefndri stuttmynd sinni frá árinu 1984, og segir frá ungum dreng sem vekur dauðan hund sinn til lífsins að hætti vísindaskáldsagna fortíðar.

Þessi vandaða mynd inniheldur öll helstu höfundareinkenni leikstjórans og því ætti það ekki að koma neinum á óvart að yngstu börnin gætu orðið skelkuð á köflum. Burton vísar í gamlar skrímslamyndir eins og hann eigi lífið að leysa og fyrir spekinga í hryllingsfræðum er þetta þrælskemmtilegt. Á köflum er samt eins og Disney (framleiðandi myndarinnar) hafi skipt sér of mikið af. Fyrst þeir samþykktu litleysið fannst mér ég geta átt von á hverju sem er, en Frankenweenie heldur sig mestmegnis á troðnum slóðum.

Útfærsla leikbrúðanna og öll listræn stjórnun er til fyrirmyndar. Þetta þykja nú seint einhver tíðindi þegar um þennan leikstjóra er að ræða, en ég hafði gaman af því að sjá glitta í grófleika hér og þar, en mér hefur þótt Burton helst til slípaður í seinni tíð. Tónlistin eftir Danny Elfman (nema hvað) olli þó vonbrigðum og líkt og þegar börn masa í kennslustund finnst mér einhver þurfa að stía þeim kumpánum í sundur.

Af nokkrum minniháttar göllum var fyrirsjáanlegur endirinn samt það eina sem angraði mig virkilega. Burton virtist stefna í að brjóta eina stærstu óskrifuðu reglu barnamyndanna, en sneri svo við rétt við marklínuna. Svekkjandi. Þetta hefði getað orðið frábær mynd.

Niðurstaða: Fyndin, falleg, en skortir hugrekkið sem þarf til að verða frábær.

Birt í Fréttablaðinu 25.10.2012

Heillandi hægagangur

Posted in Íslenskar kvikmyndir, Fréttablaðið, Gagnrýni on 26.10.2012 by snobbhaensn

Hreint hjarta **** (4 stjörnur)
Leikstjórn: Grímur Hákonarson

Kristinn Ágúst Friðfinnsson er prestur á Selfossi sem stendur í deilum við samstarfsfólk sitt og yfirmenn. Honum finnst hafa verið svínað á sér og í þessari einlægu heimildarmynd fylgjumst við með daglegu lífi prestsins í vinnunni jafnt sem utan hennar. Sjálfur er Kristinn reyndar á því að prestar séu aldrei utan vinnunnar og má vera að sannleikskorn leynist í því.

Myndavélin er sem fluga á vegg viðfangsefnisins og fer með honum um víðan völl. Skiptir þá engu hvort hann er á Skype-stefnumóti við eiginkonu sína (sem starfar á Grænlandi) eða í prestsheimsókn hjá syrgjandi fjölskyldu látins manns. Áhorfandinn fær að vera með alls staðar og það gerir myndin bæði raunverulegri og skemmtilegri.

Við fáum nasaþefinn af deilum Kristins við hinn prestinn í kirkjunni og það andar verulega köldu þeirra á milli. Það er grátbroslegt að fylgjast með þeim hlið við hlið boðandi fagnaðarerindið, vitandi af allri óvildinni og karpinu sem á undan hefur gengið. Myndin málar nokkuð einhliða mynd af ástandinu, en skarpir áhorfendur gera sér vafalaust grein fyrir því og í þágu dramatíkur er auðvelt að fyrirgefa það. Og fari hinn presturinn eftir boðskap kristninnar ætti hann að geta gert það líka.

Stíllinn er lágstemmdur og Grímur leikstjóri leyfir fílingnum að ráða för. Sjálfur presturinn er heillandi karakter en talar á köflum óþægilega hægt. Myndavélinni er þó leyft að rúlla áfram og fyrr en varir venst maður hraðanum. Þá smellpassar tónlistin við myndmálið og er notuð sparlega, en líkt og myndin sjálf er hún í rólegri kantinum. Enda er engin ástæða til að flýta sér um of.

Niðurstaða: Afslöppuð mynd um forvitnilegan mann.

Birt í Fréttablaðinu 16.10.2012

RIFF – Takk fyrir mig

Posted in Blogg, Gagnrýni, RIFF on 8.10.2012 by snobbhaensn

Þá er RIFF 2012 lokið og allt í allt sá ég 13 myndir. Það er sæmilegt í ljósi þess að ég neyddist til að vera hálf-vanvirkur fyrri hluta hátíðar. Síðustu tvær myndirnar sá ég í gærkvöldi og báðar voru þær skandinavískar. Hin sannsögulega Kon-Tiki er norsk og segir frá fífldjarfri flekasiglingu landkönnuðarins Thors Heyerdal frá Perú til Pólýnesíu árið 1947. Þetta er gríðarlega íburðarmikil próduksjón og sú allra dýrasta sem ráðist hefur verið í á Norðurlöndunum. Myndin er hrikalega flott, þrælskemmtileg og bráðfyndin, en það er grunnt á dramanu. Það er líka alveg í lagi stundum.

 

Seinni myndin var sjálf lokamynd RIFF, The Hunt eftir Thomas Vinterberg, en í henni er leikskólastarfsmaður í litlum bæ í Danmörku sakaður um að misnota barn kynferðislega. Samfélagið fer á annan endann og andrúmsloft myndarinnar er þrúgandi og óþægilegt. Myndin er frábær og Mads Mikkelsen sýnir stórleik í aðalhlutverkinu. Þá fannst mér bláendirinn sérstaklega sterkur en samferðamaður minn var mér ósammála.

Hvað um það, 13 myndir í heildina og aðeins ein þeirra fannst mér slök (Og We Are Legion var meh). Það er frábært hlutfall sem ég veit ekki hvort skrifast á gæðastjórnun RIFF eða það að ég hafi hreinlega grísað á allar réttu myndirnar. Skipuleggjendur mega þó vera stoltir af vinnu sinni og það er mín tilfinning að hátíðin í ár hafi markað kaflaskil í sögu RIFF. Ég hef svo sem ekkert fyrir mér í því annað en huglægt stemningarmat mitt, en mér er farið að sýnast andrúmsloftið og spenningurinn líkjast Airwaves meir og meir.

Ég vona samt að á næsta ári verði hádegissýningum bætt við. 14:00-sýningarnar sem ég fór á voru vel sóttar og ég er handviss um að 12:00-sýningar væru það líka. Þá gæti maður séð enn fleiri myndir. Lúxusvandamál? Þaðheldégnú!

Takk fyrir mig RIFF!

Næstsíðasti í RIFF

Posted in Blogg, Gagnrýni, RIFF on 7.10.2012 by snobbhaensn

Gærkvöldið á RIFF var ögn meira upplífgandi en föstudagskvöldið og lagði ég leið mína í Háskólabíó til að sjá tvær myndir. Searching For Sugar Man er sú mynd á hátíðinni sem ég hef heyrt flesta mæla með. Segir hún frá dularfullri leit að lítið þekktum tónlistarmanni sem enginn veit hvort er lífs eða liðinn. Sögur herma að hann hafi skotið sig í hausinn á tónleikum. Aðrir vilja meina að hann hafi kveikt í sér. Þessi magnaða mynd stóð undir væntingum, er gríðarlega vel gerð og sagan sjálf er lyginni líkust. Ég mæli ekki bara með myndinni, heldur skipa ég þér að sjá hana eins og skot. Hún er æði.

Seinni mynd kvöldsins var Woody Allen: A Documentary, nokkuð vönduð en þó ekki hnökralaus heimildarmynd um þennan magnaða leikstjóra og grínista. Þetta er voða beisik. Viðtöl við Woody og samstarfsfólk, klippur úr myndunum hans, svipmyndir úr daglegu lífi hans o.s.frv. Þrælskemmtilegt fyrir aðdáendur og eflaust ágætt fyrir hina, en ferill Woody hefur verið bæði langur og dramatískur. Miðað við allt sem á hefur dunið er þetta kannski helst til mikið drottningarviðtal. En hvað um það, fínasta mynd og inniheldur margar af mínum uppáhalds Woody-senum. Saknaði þó mannsins sem fór úr fókus.

Í kvöld lýkur RIFF. Ég ætla að sjá tvær myndir. En fyrst ætla ég aðeins að liggja.