Gestahænsnið: Dr. Gunni

Gestahænsni vikunnar er enginn annar en pönkarinn og poppfræðingurinn Dr. Gunni. Hann er ekki bara poppfróður, heldur einnig mikill áhugamaður um kvikmyndir og bloggar meira að segja stundum um þær. Ég veit þó lítið um smekk hans á kvikmyndum (nema að honum fannst Avatar rusl) og ákvað því að demba á hann nokkrum hænsnisspurningum, en gleymdi að vísu að spyrja hann hvort hann hefði farið aleinn í bíó.

[Gunnar gerði athugasemd við þetta og svo virðist sem sjálfu Snobbhænsninu sé að misminna. Gunnar kann vel að meta Avatar en finnst Kóngavegur hins vegar vera rusl.]

Hvað ertu að brasa og hvað er framundan?
Ég er að klára poppsöguhlúnk einn gríðarlegan sem á að koma út í haust. Vinnuheitið á bókinni er Stuð og menn, saga íslenskrar dægurtónlistar. Svo langar mig að gera barnaplötu með Heiðu á næstu misserum, Popppunktur verður líklega eitthvað á sveimi, en svo er það bara eitthvað sjitt til að borga reikningana. Veistu um eitthvað?

Hvaða mynd sástu síðast?
Ég fór á The Artist, mjög góð og skemmtileg feel-good mynd. Maður er alltaf aðeins á varðbergi þegar myndir hafa fengið jafn sláandi einróma lof, en þessi á það alveg skilið. Myndin byggir á frásagnastíl mynda frá þessum s/h-tímum en víkkar formið heldur betur út. Ég hef verið að spá í þessu tímabili, hef verið að skrifa um það í poppbókinni og svo tók ég törn í Chaplin og horfði á helstu myndirnar hans með krökkunum mínum. Eintóm meistaraverk þar á ferð, frá The Kid 1921 til Modern Times 1936. Ég var því mjög „andlega“ undirbúinn fyrir „heim“ The Artist og fílaði hann mjög vel. Gríðalegra flott og fín mynd.

Hver er fyrsta bíóminningin þín?
Ég man lítið af þessu ljóslifandi en ætli ég hafi ekki oft farið í 3-bíó þar sem safnað var saman gömlum teiknimyndum, annað hvort frá Disney eða eitthvað annað. Ég man eiginlega meira eftir poppinu í Kópavogsbíói, en það var af tegundinni Lollipopp. Ég fór svo á fyrstu Star Wars myndina í Nýja bíói 1978 með mömmu og pabba, næst fór ég með þeim á Titanic og svo á einhverja af þessum Stig Larson myndum. Ég man líka eftir því sem barn að hafa séð Maðurinn sem minnkaði, The Incredible Shrinking Man, í sjónvarpinu. Ég hef örugglega fengið martraðir af henni!

Áttu þér uppáhalds kvikmyndaleikstjóra?
Lengi framan af voru það þeir David Lynch og John Waters. Lítið komið frá þeim af viti nýlega þó. Ég hef tekið Hitchcock tarnir og Luis Bunuel er frábær. Alexander Payne er snillingur (á eftir að sjá nýju myndina hans en hlakka mikið til) og Todd Solondz lofaði góðu með Happiness, sem er geðveik, en stóð því miður ekki undir því. Coen-bræður eru hinsvegar alltaf mjög góðir og alltaf treystandi til góðra mynda.

Hvaða mynd hefur hrætt þig mest?
Það er örugglega fyrsta Friday the 13th sem ég sá í þynnku 14-15 ára. Ég var svo skelkaður að ég þurfti að skríða upp í á milli foreldra minna (ekki segja neinum). Ég tók tímabil þegar ég lagði mig fram við að sjá ógeðslegar myndir. Man að ég pantaði einhverjar bootleggútgáfur á VHS af einhverjum gaur frá Svíþjóð. Bókin frá Re/Search Incredible Strange Films hafði mikil áhrif og maður vildi sjá allar myndirnar sem voru í henni. Þetta var á Bless og Ham tímabilinu, 1987 eða svo, og allir sem maður þekkti höfðu áhuga á því sem var sikk og ógeðslegt. Það var nánast keppni í því hver gæti horft á meira sikk drasl.

Ég er löngu vaxinn upp úr þessu og sæki frekar í feel-good en feel-bad myndir. Hef lítið þol fyrir ógeði lengur, þurfti t.d. að loka augunum þegar hausinn var laminn í sundur með slökkvitæki í myndinni Irréversible, sem er svona það ógeðslegasta sem ég hef séð í seinni tíð. Mér finnst bara mjög óþægilegt að bregða!

Hvaða mynd ættu allir að sjá sem fáir hafa séð?
Tja, hafa ekki allir séð allt? En ok… Tékkið á Play Time eftir franska grínistann Jacques Tati frá 1967. Frábærlega „nútímaleg“ mynd, hæg og seiðandi, bara um gamlan karl að flækjast um á flugvelli og eitthvað og setti Tati á hausinn. The Trouble with Harry er lúmsk snilld eftir Hitchcock, hálfgerð grínmynd um fólk að væflast um með lík. Le Fantôme de la liberté eftir Luis Bunuel er súrrealísk snilld. Tékkaðu á „manninum sem brosti aldrei“, Buster Keaton, ef þú vilt eitthvað ævagamalt og fyndið. T.d. myndirnar hans Go West eða Steamboat Bill Jr. Og teiknimyndir eftir Tex Avery. Ég tók alveg kast á þeim einu sinni.

Leiðinlegasta mynd sem þú hefur séð?
Ég hætti nú auðvitað oftast að horfa áður en ég klára alveg gjörsamlega ömurlegar myndir. Ég man eftir einni sem ég gafst mjög fljótlega upp á, Joe Dirt með David Spade. Ég skil ekki afhverju einhver hélt að David Spade gæti eitthvað án Chris Farley. Það voru úrvals fávitamyndir sem þeir léku saman í. Ég og Pétur Magnússon vinur minn reynum að fara stundum á fávitamyndir í bíó. Fátt betra en góð fávitamynd, ef hún er fyndin!

Ég þakka Gunnari kærlega fyrir spjallið og ykkur fyrir lesturinn. Yfir og út.

2 svör to “Gestahænsnið: Dr. Gunni”

  1. […] er gestahænsn á kvikmyndasíðu Hauks Morðingja, Snobbhænsn. Þar segir m.a. frá því þegar ég þurfti rígfullorðinn maðurinn að skríða upp í á […]

  2. Þessi mynd af Pétri er roooooooooooooosaleg! Afhverju eru strákar ekki oftar klæddir svona?

Færðu inn athugasemd