Breakfast at Tiffany’s [1961]

Ég vissi að það myndi reynast mér erfitt að horfa á heila mynd þar sem hið undursamlega „Moon River“ er aðal þemalagið. Ljúfsárari gerast lögin ekki, og þess vegna var eldhúsrúllan í seilingarfjarlægð þegar ég horfði loksins á Breakfast at Tiffany’s.

Það var sjálfur Karl Berndsen sem skipaði mér að sjá þessa mynd. Ég fékk hann í Monitor-viðtal og þar barst myndin í tal. Hann gekk svo langt að segja að hún myndi líklega breyta lífi mínu. Betri gerast meðmælin varla, og því löngu orðið tímabært að sjá myndina.

Myndin fjallar um ungan rithöfund í New York sem flytur í nýja íbúð og kynnum hans af léttklikkaðri nágrannakonu sinni, Holly Golightly (leikinni af hinni stórkostlegu Audrey Hepburn), en þrátt fyrir að allt bendi til þess að hún sé vændiskona verður rithöfundurinn ungi engu að síður ástfanginn af henni. Það á kannski betur við en það kann að hljóma, því sjálfur selur hann blíðu sína til að eiga fyrir salti í grautinn.

Það er mjög auðvelt að sjá hvers vegna myndin er í uppáhaldi svo margra. Audrey Hepburn er frábær í sínu hlutverki, og ég held hreinlega að ég hafi ekki séð persónu í kvikmynd sem svipar til Holly Golightly, hvorki fyrr né síðar. Hún er furðuleg í fasi og háttalag hennar minnir einna helst á einhvern sem reykir afskaplega mikið gras. Heimspeki hennar er undarleg og truflandi, en hennar eini metnaður í lífinu er að giftast ríkum manni svo hún geti keypt allt það sem hugurinn girnist.

Þrátt fyrir þessa öfgakenndu persónuleikaröskun, og þá staðreynd að hún er gleðikona, verður áhorfandinn ástfanginn af henni um leið og rithöfundurinn ungi. Audrey Hepburn var stjarnfræðilega falleg, og þessir fyndnu taktar hennar ofan á allt annað gera það að verkum að helst langaði mig að ferðast aftur í tímann og gera hana að konunni minni.

Mikið hefur verið skrifað og pælt varðandi Breakfast at Tiffany’s. Holly Golightly lifir í gerviveröld og lýgur því að sjálfri sér að líf hennar sé spennandi og æðislegt, en afneitar ástinni vegna þess að hún er hrædd við hana. Allt gott og blessað. Það er t.a.m. athyglisvert að skoða samband samkynhneigðra við myndina, en hún er í miklum metum meðal margra samkynhneigðra og fyrir löngu orðinn hluti af samkynhneigðum kúltúr.

Það þarf svo sem ekki að kafa neitt sérstaklega djúpt til þess að sjá tenginguna. Holly gæti verið tákngervingur samkynhneigðs einstaklings sem lifir í sjálfsblekkingu í heimi hinna gagnkynhneigðu (inni í skápnum) en kvelst innra með sér vegna þess að innst inni veit hann að þetta er ekki sá sem hann er. Hmmm, ekkert einu sinni sérstaklega langsótt. Það er meira að segja atriði í myndinni þar sem Holly og rithöfundurinn hnupla hrekkjavökugrímum úr verslun og setja þær upp. Allavega þá þykist ég núna skilja betur gay-appeal Breakfast at Tiffany’s.

Fyrst og fremst held ég þó að myndin sé um einmanaleika. A.m.k. var ég farinn að horfa á hana með þeim gleraugum strax í byrjun. Holly og rithöfundurinn eru tvær einmana sálir sem þarfnast hvors annars, en sýna þá þörf með ólíkum hætti. Ég var staddur í New York um daginn og hafði það á orði við félaga minn að borg eins og New York væri örugglega frábær borg til að búa í fyrir ástfangin pör, en hreinasta helvíti fyrir vinafáa einstæðinga, og reyndar stórborgir yfirleitt (þrátt fyrir að „rannsóknir“ vilji meina að New York-borg sé besta borg heims fyrir einhleypa). Borgin er svo iðandi af mannmergð og lífi að það er eflaust afskaplega auðvelt að byrja að upplifa sig sem ómerkilegan og ósýnilegan maur. New York hentar því fullkomlega sem sögusvið myndarinnar og eflaust var sú ákvörðun að staðsetja söguna þar ekki tekin í hálfkæringi.

Ég var nokkuð hrifinn af myndinni. Myndatakan er falleg og litadýrðin mikil. Ég hef sjaldan séð kvikmynd nota lýsingu og liti jafn vel og jafn smekklega. Hver einasti rammi er stílhreinn og útpældur. Stundum er það leiðinlegt, þarna er það stórskemmtilegt.

En þrátt fyrir hvatningarorð Karls Berndsen þá er ég ennþá sami maður og fyrr í kvöld þegar ég hafði ekki séð Breakfast at Tiffany’s. Myndin verður 50 ára gömul á næsta ári og þó efnistök hennar séu tímalaus þá er framsetningin það ekki.

Japanski nágranni Holly (leikinn af hinum skjannahvíta Mickey Rooney) er illa liðinn og þykir ljótt merki um rasisma gamla tímans. Það má vera að hann sé það, en hann pirraði mig mest með því að vera ófyndinn og í vitlausri mynd. Slapstick-karakter í dramatískri ástarsögu.

Það getur einnig verið nokkuð truflandi þegar myndir eru það gamlar að ekki þótti til siðs að sýna hlutina eins og þeir voru í raun og veru. Það hefði nú ekki verið við hæfi að sýna Holly að totta útigangsmann á bakvið ruslagám fyrir þúsundkall (og það hefði ekki þjónað neinum tilgangi heldur), en tepruskapur gamla tímans gerir það að verkum að myndin hefur ekki jafn öflugan „dramatískan höggþunga“ og hún hefði getað gert. Kannski hefði það komið niður á góða fílingnum, ég veit það ekki.

Oft neyddi tepruskapurinn (Hays-kóðinn) leikstjóra og handritshöfunda til þess að gefa hlutina í skyn í stað þess að sýna þá blákalt, og það gat verið til mikilla bóta. Margir kannast við það að horfa á gamla kvikmynd og hugsa með sér eitthvað á þessa leið: „Hmmm, ætli persónan hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og þess vegna verið eins og hún var?“. Í myndum í dag er slíkum upplýsingum slengt framan í áhorfandann í einni setningu eða grafísku atriði. Oft er betra að fá að rýna í það óljósa. En í þessari kvikmynd fannst mér kötturinn mega fara aðeins nær heita grautnum.

En þá er það lokaspurningin. Þurfti ég að grípa til eldhúsrúllunnar?

Ég kýs að tjá mig ekki um það að svo stöddu.

Færðu inn athugasemd